Traust fjárfesta á þýska hagkerfinu fer dvínandi, en væntingarvísitala ZEW-hagfræðistofnunarinnar sýndi í nóvember mínus 15,7 stig og lækkaði úr mínus 11,5 stigum í október. Er þetta versta útkoman í yfir tvö og hálft ár. Wolfgang Franz, forsvarsmaður stofnunarinnar, sagði í yfirlýsingu að þróun mála í Evrópu komi niður á þýskum efnahag í gegnum utanríkisviðskipti og minnkandi traust.
Búist hafði verið við að vísitalan myndi hækka örlítið og því kom þessi niðurstaða greiningaraðilum í opna skjöldu. Þegar vísitalan er neikvæð gefur það fyrirheit um neikvætt viðhorf fjárfesta til stöðu efnahagsmála, en að sama skapi gefur jákvæð niðurstaða fyrirheit um bjartari tíma.
Annalisa Piazza, hagfræðingur hjá Newedge Strategy, segir að ekki sé búist við að þýska hagkerfið sé á leiðinni að falla á næstunni, en að þetta viðhorf muni smita út frá sér í einhvern tíma.
Þýskalandi hefur hingað til tekist að fóta sig betur í skuldakrísunni en hinum 17 evruþjóðunum, en sérfræðingar hafa þó varað við því að landið geti ekki staðið óskaddað endalaust. Á fyrsta ársfjórðungi var hagvöxtur Þýskalands 0,5% og á öðrum ársfjórðungi 0,3%. Á sama tíma lentu mörg önnur evrulönd í samdrætti. Seinna í vikunni mun seðlabanki landsins gefa út tölur um hagvöxt á þriðja ársfjórðungi, en hann hefur áður varað við því að búast megi við að það hægist mikið á vextinum á seinni helmingi ársins og að jafnvel komi til samdráttar.