Tal hefur nú fært öll heildsöluviðskipti sín til Símans í kjölfar þess að fyrirtækin undirrituðu samninga sem ná til allrar fjarskiptaþjónustu Tals. Tal hefur hingað til átt heildsöluviðskipti við bæði Símann og Vodafone. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Tali.
„Það einfaldar allan okkar rekstur og gerir hann bæði stöðugri og hagkvæmari að eiga viðskipti við einn birgi í stað tveggja áður. Þá skiptir það miklu máli að Síminn veitir okkur frábæra þjónustu,“ segir Viktor Ólason, forstjóri Tals.
Tal hefur á liðnum misserum fært langflesta GSM-viðskiptavini sína sem hafa verið á kerfi Vodafone yfir á símstöð Tals þaðan sem viðskiptavinir Tals fá aðgang að kerfum Símans. Með samningunum nú mun Tal notast við innviði Símans fyrir alla sína fjarskiptaþjónustu; farsíma, heimasíma, net og sjónvarp.