Í dag hefur göngu sína nýr viðskiptaþáttur á mbl.is, en þar mun blaðamaðurinn Sigurður Már Jónsson fá til sín fólk úr viðskiptalífinu og ræða um það sem helst er á baugi hérlendis á því sviði. Viðmælandi Sigurðar í fyrsta þættinum er Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, en þeir ræða meðal annars um eðlilegt traust á fjármálamörkuðum, skráningu Eimskipa, vöntun á útflutningsfyrirtækjum á markað og stöðu smærri félaga þegar kemur að skráningu hérlendis.
Páll telur að á næstunni muni skráningum fyrirtækja í Kauphöllinni fjölga mikið „Næsta árið eða rúmlega það þætti mér ekkert óeðlilegt að fjöldi fyrirtækja væri kominn upp í tuttugu eða þar um bil og markaðsverðið orðið um þriðjungi hærra en það er núna.“ Hann segir æskilegt að sjávarútvegsfyrirtækin og önnur stór útflutningsfyrirtæki, svo sem orkufyrirtæki, verði skráð á markað, en það muni bæta allt fjármögnunarumhverfi fyrirtækja hérlendis.
Ýmislegt stendur því þó í vegi og nefnir Páll óvissu um starfsumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. Mörg þeirra hafi þó fulla burði til að sóma sig vel á hlutabréfamarkaði og það geti verið grunnur að góðri sátt um sjávarútveginn, þar sem almenningi sé gefinn kostur á að fá hlutdeild í arði þessara fyrirtækja með þátttöku í atvinnulífinu.
Þátturinn verður framvegis sýndur vikulega á fimmudögum hér á mbl.is