Skoðun leiddi ekkert misjafnt í ljós

Eimskip.
Eimskip.

Fjármálaeftirlitið fann ekki dæmi þess efnis að viðskipti með hlutabréf Eimskipafélags Íslands hafi verið framkvæmd á grundvelli innherjaupplýsinga. Vakin er þó athygli á mikilvægi þess að þátttakendum í lokuðum útboðum sé gert ljóst fyrirfram um takmarkanir og skilmála, t.d. hvort fyrirvarar við tilboð séu heimilaðir. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hefur verið birt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.

Vegna málsins fóru fulltrúar Fjármálaeftirlitsins á vettvang og öfluðu gagna hjá umsjónaraðilum útboðsins, Straumi fjárfestingabanka og Íslandsbanka þann 29. október, en athugunin beinist aðeins að framkvæmd hins lokaða útboðs, en almennt útboð fór fram 30. október til 2. nóvember.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is hættu nokkrir lífeyrissjóðir við að taka þátt í útboðinu vegna kaupréttasamninga sex stjórnenda sem þeir töldu óeðlilega háa. Þegar útboðsfresturinn var liðinn drógu stjórnendurnir kaupréttina til baka og kom þá í ljós að nokkrir aðilar höfðu gert tilboð með fyrirvara um að það yrði gert. Festa lífeyrissjóður taldi að fjárfestar höfðu ekki setið við sama borð og fór fram á rannsókn Fjármálaeftirlitsins á útboðinu.

„Fjármálaeftirlitið vekur athygli á mikilvægi þess að þátttakendum í lokuðum útboðum sé gert ljóst fyrirfram um takmarkanir og skilmála, t.d. hvort fyrirvarar við tilboð séu heimilaðir. Slíkt treystir tiltrú fjárfesta á að allir sitji við sama borð og er í samræmi við góða viðskiptahætti.“

Í samtali mbl.is við Pétur Einarsson, forstjóra Straums fjárfestingabanka, segist hann vera gríðarlega kátur með þessa niðurstöðu og sérstaklega hversu stuttan tíma rannsóknin hafi tekið. Aðspurður hvort einhvern lærdóm megi draga af þessu máli segir Pétur að það þurfi „klárlega að ræða betur um hvernig kjaramál stjórnenda og hagsmunir hluthafa fari betur saman“. 

Á morgun verður Eimskip skráð á markað í Kauphöllinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK