Viðskipti með bréf Eimskips hófust í Kauphöllinni í dag og hafa bréf félagsins hækkað um 8% frá því í útboðinu þar sem verð var 208 krónur á hlut. Viðskipti með bréfin hafa verið um 270 milljónir það sem af er degi, en gengi þeirra stendur nú í 224,5 krónum á hlut. Fulltrúar starfsmanna Eimskips, auk Gylfa Sigfússonar, forstjóra félagsins, hringdu inn viðskiptin í morgun í Kauphöllinni.
Í tilkynningu frá Eimskip og Kauphöllinni segir Gylfi það ánægjulegt að fyrirtækið sé tekið til viðskipta í Kauphöllinni. „Það er ánægjulegt fyrir okkur starfsmenn Eimskips að hlutabréf félagsins séu nú tekin til viðskipta á NASDAQ OMX Iceland. Mikill áhugi var á félaginu í útboðinu og er það nú komið í þá dreifðu eignaraðild sem við vonuðumst eftir. Eimskip gegnir mikilvægu hlutverki í flutningum á Norður-Atlantshafi og þeim framtíðarverkefnum sem þar eru í burðarliðnum. Við vonum að skráning félagsins verði mikilvægt framlag til enduruppbyggingar og þróunar hlutabréfamarkaðar á Íslandi.“