Víkur- og Hólahverfi lækkað mest í verði en Vesturbærinn dýrastur

Íbúðaverð hefur lækkað um 2-16% í Reykjavík og nágrenni síðan …
Íbúðaverð hefur lækkað um 2-16% í Reykjavík og nágrenni síðan 2008. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fermetraverð í fjölbýli hefur lækkað um 2 til 16% á höfuðborgarsvæðinu síðan 2008, en mest lækkun er í Víkur- og Hólahverfi. Miðbærinn er ekki lengur dýrastur, heldur er Haga- og Melahverfið dýrast, auk þess sem verð í Sjálandi í Garðabæ og á Seltjarnarnesi er einnig hærra en í miðbænum. Þetta kemur fram í tölum sem hagfræðideild Landsbankans birtir í dag.

Í hagsjá bankans segir að um miðjan síðasta áratug hafi allt verið á fleygiferð á fasteignamarkaði á Íslandi. Í kjölfar kosninganna 2003, með loforðum um 90% húsnæðislán, innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn og mikilli samkeppni af hálfu Íbúðalánasjóðs, jókst velta á markaðnum mikið, verð hækkaði og byggingastarfsemi jókst mikið. Á þessum tíma var líka mikil umræða um þéttingu byggðar og uppbyggingu miðborgarinnar. Einnig varð veruleg uppbygging í úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Verðmunur á milli dýrustu og ódýrustu hverfanna jókst á milli 2005 og 2007. 

Árið 2008 tók sá munur að minnka, m.a. vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í efnahagslífinu og mikils umframframboðs á húsnæði. Árið 2008 var verð hæst í miðborginni, en þegar
komið er fram til ársins 2011 hefur miðborginni verið velt úr sessi sem dýrasta hverfinu. Árið 2011 var verðið hæst í Mela- og Hagahverfi, í Sjálandi í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Verðið var lægst í Breiðholtshverfunum og Vöngum og Álfaskeiði í Hafnarfirði. Að Sjálandi undanskildu er greinilegt að hæsta fermetraverðið er í gömlum og grónum hverfum í Reykjavík, hið sama má segja um Seltjarnarnes.

Hagfræðideildin segir að þegar litið sé á breytingu á verði milli áranna 2008 og 2011 sjáist að verð hefur lækkað í öllum hverfum. Verðlækkunin er á bilinu 2-16%, en meðalverðlækkunin í öllum hverfunum er 10%. Verðið var hæst í miðborginni á árinu 2008, en verðið þar gaf töluvert eftir og lækkaði um 13% fram til ársloka 2011. Verðlækkunin var minnst á Seltjarnarnesi, þar lækkaði verð einungis um 2%, þar á eftir komu Teigar og Tún og Grandar með 3% lækkun. Mesta verðlækkunin var í Víkurhverfi, en þar á eftir komu Hólar, Hraunbær og Vogar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK