Mikill munur er á kröfum flugmanna flugfélagsins SAS og forráðamanna fyrirtækisins um launakjör, en félagið hefur lýst því yfir að laun allra starfsmanna verði lækkuð og er það liður í áætlun fyrirtækisins um að halda velli.
Flugmennirnir lögðu fram kröfur sínar í nótt og segjast með því vera að koma til móts við kröfur SAS. Í frétt danska viðskiptavefsins Epn.dk er því aftur á móti haldið fram að kröfur flugmannanna séu langt frá hugmyndum fyrirtækisins.
„Strax eftir miðnætti í nótt lögðu félög flugmanna frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi fram tilboð til SAS sem kemur til móts við SAS á allan hátt. Þetta tilboð ætti að verða til þess að hægt verði að ljúka samningum á uppbyggilegan hátt,“ segir Jens Lippestad, formaður norska flugmannafélagsins í samtali við Epn.dk.
Auk launalækkana hyggst SAS skerða lífeyrisréttindi starfsfólks.
Undanfarna viku hafa stjórnendur SAS fundað með starfsfólki vegna niðurskurðarins og til stendur að niðurstöður þeirra viðræðna liggi fyrir í dag þannig að hægt verði að ganga endanlega frá niðurskurðaráætluninni.