Samningar við starfsfólk flugfélagsins SAS hafa gengið illa, en það fékk viku til að ákveða hvort það gengi að niðurskurðartillögum félagsins, sem meðal annars hljóða upp á verulega launalækkun og ýmsar aðrar skerðingar á kjörum.
Stjórn SAS mun ráða ráðum sínum í dag um áframhaldandi rekstur félagsins.
Flugfreyjur og -þjónar félagsins eru sögð hafa gengið að mestu að kröfum SAS, en engu að síður er fullyrt að ekki hafi verið hægt að ná samningum. Viðræðum við starfsfólk verður haldið áfram í dag.
Flugmenn og flugstjórar lögðu fram gagntilboð í nótt, en samkvæmt fréttaflutningi ýmissa norrænna fjölmiðla er það ekki ásættanlegt fyrir SAS. Flugmenn eru sú stétt sem hefur einna mestu að tapa vegna lífeyrisréttinda þeirra.
Knut Morten Johansen, upplýsingafulltrúi SAS, segir í samtali við Aftenposten að búið sé að virkja neyðaráætlun, fari svo að félagið verði gjaldþrota næstu daga. Einn liður í áætluninni er að gæta þess að eldsneytistankar flugvélanna verði fullir, svo hægt verði að fljúga þeim heim, ef félagið verði gjaldþrota.
Spurður að því hvað þetta óvissuástand þýði fyrir farþega félagsins, segir Johansen að þeir ættu ekki að verða varir við neitt, en undirstrikar að ástandið sé alvarlegt.
Rickard Gustafson, forstjóri SAS, hefur gert starfsfólki ljóst að það sé nánast ekkert svigrúm til samninga; að fólkið verði að ganga að kröfum SAS. Haft er eftir honum að það sé eini möguleikinn, eigi SAS að lifa af.