Enn ræðast forsvarsmenn SAS og fulltrúar stéttarfélaga starfsmanna félagsins við þó að frestur til að ná nauðasamningum við lánardrottna sé runninn út. Á miðnætti að dönskum tíma (kl. 23 að íslenskum tíma) rann fresturinn út.
Rætt er um niðurskurðartillögur sem SAS þarf að uppfylla vilji það ná nauðasamningum við lánardrottna. Tilboð hafa gengið á milli stjórnenda SAS og fulltrúa starfsmanna og er boltinn nú hjá stéttarfélögunum.
Upplýsingafulltrúi SAS, Elisabeth Manzi, segir að viðræðurnar muni halda áfram fram eftir nóttu og enn sé alveg óljóst hvenær þeim ljúki.
Forstjóri SAS í Noregi sagði fyrr í kvöld að um 50% líkur væru á því að það tækist að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti.
Danmarks Radio segir að andrúmsloftið sé léttara nú en fyrr í kvöld. „Við getum með ánægju staðfest að viðræður eru aftur hafnar. Við erum aftur farin að tala saman. Við höfum fengið tilboð frá stjórn fyrirtækisins til baka,“ segir Helge Thuesen, formaður stéttarfélags flugliða.
Hún segir að nú verði rætt við forsvarsmenn hinna stéttarfélaganna og farið yfir tilboðið.
Tveimur tímum áður en samningsfresturinn rann út sagði upplýsingafulltrúi SAS í Noregi við Aftenposten að flugfarþegar ættu ekki að þurfa að vaka fram að miðnætti til að athuga hvort flogið yrði á morgun. Hann segir að stefnt sé að því að flogið verði á morgun samkvæmt áætlun.
Skandínavískir fjölmiðlar segja að stjórnarmenn frá SAS hafi farið til Stokkhólms í kvöld til viðræðna við fulltrúa banka.