Flugfreyjur ráða framtíð SAS

Flugvélar SAS.
Flugvélar SAS. AFP

Nú eiga einungis danskar flugfreyjur og -þjónar eftir að ná samkomulagi við flugfélagið SAS. Norskt flugþjónustufólk náði samkomulagi skömmu fyrir hálfátta í morgun, samkvæmt frétt sænska ríkissjónvarpsins.

Náist samningar þarf stjórn félagsins að meta hvort samningarnir við einstök stéttarfélög standist þær niðurskurðarkröfur sem gerðar eru.

Verði niðurstaðan sú að svo sé mun SAS fá aðgang að auknu lánsfé hjá helstu lánardrottnum sínum og hjá stjórnvöldum í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Það stéttarfélag sem á eftir að ganga frá samningum við SAS er Danske Cabin Attendants Union (CAU).

Þarfnast 5,2 milljarða danskra króna

SAS þarfnast 5,2 milljarða danskra króna til að halda velli. Helmingur fjárins, 2,6 milljarðar, á að fást með sölu eigna á borð við norska flugfélagið Widerøe og þjónustufyrirtækið SAS Ground Handling. Hinn helmingurinn á að fást með því að lækka laun starfsfólks og með útvistun ýmissar þjónustu.

Nokkuð misjafnt er eftir starfsstéttum hversu miklu launalækkunin nemur. Til dæmis svarar launalækkun flugmanna til einna mánaðarlauna á ári hverju og auk þess skerðast lífeyrisréttindi þeirra og vinnuvikan lengist.

15% launalækkun eða SAS fer á hausinn

Cecilia Fahlberg, talsmaður sænska flugfreyjufélagsins, segir í samtali við Berlingske Tidende að það hafi verið afar erfitt fyrir félagið að fallast á kröfur SAS og hún segir að miklar breytingar muni verða í vinnuumhverfi starfsmanna. Í samtali við Politiken segir hún að skilaboð SAS hafi verið einföld:„Þið fallist á 15% launalækkun eða SAS fer á hausinn.“

Fahlberg segir að SAS hafi þurft að gefa nokkuð eftir af þessum kröfum. Föst laun hafi ekki verið lækkuð og fyrirkomulagi launaþrepa ekki breytt. En launahækkanir, sem voru fyrirhugaðar 2013 og 2014, hafa verið afturkallaðar, eftirlaunaaldur hækkaður upp í 65 ár og breytingar gerðar á vinnutíma. 

Ekki gott að neinu leyti

Anneli Nyberg, formaður SAS Norge kabinforening, sem er annað tveggja stéttarfélaga þeirra flugfreyja og -þjóna sem starfa hjá SAS, segir samninginn ekki að neinu leyti góðan fyrir félagsmenn. „En við gengumst inn á hann til þess að bjarga störfum okkar,“ sagði Nyberg í samtali við DR, danska ríkissjónvarpið, í morgun.

Starfsemi SAS hefur að mestu leyti gengið fyrir sig samkvæmt venju í morgun. Nokkrum flugferðum hefur þó verið aflýst vegna veikinda og manneklu.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS.
Rickard Gustafson, forstjóri SAS. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK