Flugfélagið Scandinavian Airlines System var stofnað árið 1946 með sameiningu Svensk Interkontinental Lufttrafik AB, Det Danske Luftfartselskab A/S og Det Norske Luftfartselskap AS. Eignarhaldinu var skipt þannig að SAS í Svíþjóð eignaðist 42,8%, en SAS í Noregi og Danmörk 28,6% hvort. Ríkisstjórnir landanna hafa svo átt 50% í þeim félögum á móti almennum fjárfestum. Seinna meir var nafninu breytt í Scandinavian Airlines, eða SAS, eins og það alla jafna er kallað.
Nú eru uppi áform um gífurlegar sparnaðaraðgerðir, sölu dótturfélaga, launalækkanir og uppsagnir starfsfólks til að bjarga félaginu. Hafa þessar aðgerðir hlotið nafnið 4 Excellence Next Generation eða 4XNG. Félagið þarf að auka lánalínur sínar og lánadrottnar hafa sett fram kröfur um sparnað upp á 2,6 milljarða danskra króna á ári og sölu á dótturfélögum og öðrum eignum fyrir aðra 2,6 til 3 milljarða danskra króna.
Til að ná þeim sparnaði er meðal annars lagt upp með mikinn niðurskurð í launamálum, lengingu starfsaldurs og lengri vinnuviku. Þetta er meðal þess sem stéttarfélög starfsmanna hafa síðastliðna viku farið yfir og hafa nú öll samþykkt, þó með einni undantekningu þess efnis að aðildarfélagar í einu stéttarfélaginu samþykki í atkvæðagreiðslu breytingarnar. Það er þó talið nokkuð líklegt og því má segja að stjórn félagsins hafi fengið það brautargengi sem þarf til að hefja endurskipulagninguna.
Síðustu ár hafa verið félaginu erfið, en mikið rekstrartap hefur plagað reksturinn, vinsældir farið dvínandi og margir sparnaðarpakkar hafa verið settir fram á liðnum áratug. Samkeppnin hefur einnig farið harðnandi og talið er að SAS hafi ekki náð að halda í við félög eins og Norwegian air varðandi lægri fluggjöld. Meðal ástæðna í því samhengi eru meðal annars hár launakostnaður, miklar lífeyrisgreiðslur, gamall flugfloti og hlutfallslega lítil hluti í lengri flugferðum sem reynst hefur öðrum stórum flugfélögum arðbærastur.
Til að setja þetta í samhengi hefur markaðsvirði SAS lækkað úr 15,6 milljörðum norskra króna árið 2000 í 1,9 milljarða í dag. Verðmæti Norwegian air hefur á móti hækkað í 4,5 milljarða, en það var stofnað árið 2003 og var þá innan við 0,4 milljarða norskra krónu virði. Það er því meira en tvöfalt verðmætara en risinn SAS.
Frá árinu 2004 hefur áfangastöðum SAS fækkað úr 146 til 128 í fyrra. Brottförum hefur á þessu tímabili fækkað úr 1450 á hverjum degi í 1085 og farþegum fækkað úr 33 milljónum á ári í 27 milljónir. Flugvélum hefur þá fækkað úr 297 í 215.
Þá hefur starfsmönnum fækkað um meira en helming á sama tímabili, en árið 2004 voru þeir 32.481, en voru orðnir 15.142 í fyrra. Samkvæmt þeim sparnaðarplönum sem sett hafa verið fram nú verður starfsmönnum fækkað enn meira og verða ekki nema rúmlega 9 þúsund eftir að aðgerðum líkur. Inn í þeirri tölu er þó einnig fækkun starfsmanna vegna sölu dótturfélaga, en þar er meðal annars allt starfsfólk SAS Ground handling, sem er þriðja stærsta flugþjónustufyrirtæki Evrópu. Starfsmönnum í höfuðstöðvum félagsins verður þó einnig fækkað um rúmlega 800 og í stað þess að hafa þær dreifðar í löndunum þremur verða þær framvegis í Stokkhólmi í Svíþjóð.
Í þeim sparnaðaráformum sem framundan eru er gert ráð fyrir um 15% launalækkun starfsfólks, lengri vinnuviku og minni lífeyrisréttinda. Þetta hafa mörg stéttarfélögin átt erfitt með að sætta sig við, en samtals eru starfsmenn fyrirtækisins í 8 stórum stéttarfélögum. Frá því að áformin voru tilkynnt á mánudaginn fyrir 1 viku síðan hafa þau lagt fram móttilboð og reynt að draga úr sparnaðaráformunum. Yfirmönnum SAS virðist þó ekki haggað í þessu máli og segja þeir að ef ekki komi til nákvæmlega þessa niðurskurðar muni lánadrottnar bankans ekki samþykkja frekari lánafyrirgreiðslu og í kjölfarið muni þurfa að lýsa SAS gjaldþrota.
Þetta virðist hafa virkað því sjö af stéttarfélögunum sömdu við SAS í nótt, nokkrum klukkustundum eftir að uppgefinn frestur var runninn upp. Það síðasta kláraði svo samninga nú eftir hádegi og því virðist sem framtíð þessa norræna flugfélags hafi verið tryggð áframhaldandi tilvist um stundarsakir. Það er þó ljóst að af er sem áður var og félagið þarf bæði að tryggja sér betri rekstrargrundvöll, lækka kostnað og reyna að sigla pólitískt lygnan sjó, en ríkisstjórnir landanna hafa upp á síðkastið haft nokkuð mismunandi sýn á framtíð félagsins.
Norðmenn hafa á síðustu árum verið andsnúnir auknum útgjöldum til handa flugfélagsins, en þeir segja að það hafi fengið meira en nóg á síðustu 12 árum. Á þeim tíma hafa fimm sparnaðarpakkar verið samþykktir og sá sjötti er á leiðinni. Í þeim hafa verið miklar sparnaðaraðgerðir en einnig eiginfjárinnspýtingar og ábyrgðir sem ríkisstjórnirnar hafa gengið í.
Telja þeir að SAS hafi færst úr því að vera norrænt félag yfir í að þjónusta aðallega Svía og Dani, þar sem Norðmenn séu ákveðið jaðarsvæði. Meðal annars hefur verið bent á að Kastrup og Arlanda flugvellirnir í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi hafi byggst mikið upp sem SAS flugvellir og hlutfallslega séu brottfarir SAS muni fleiri þar en til dæmis á Gardermoen flugvellinum í Ósló.
Sagt er að Norðmenn hafi meðal annars talið það bestu leiðina að SAS myndi draga saman seglin og selja út nokkur dótturfélaganna, þar á meðal Widerøe, sem er innanlandsflugfélag í Noregi og hefur skilað góðum rekstri undanfarin ár.
Norska blaðið Aftenposten birti aftur á móti um helgina niðurstöður úr könnun sem gerð var í löndunum þremur um afstöðu almennings til flugfélagsins. Þar kom fram að Norðmenn voru bæði bjartsýnastir á áframhaldandi rekstur félagsins og þeir töldu nauðsynlegt og eðlilegast að ríkið setti meiri pening í reksturinn. Almenningur þar virðist því, þrátt fyrir aðhaldssemi stjórnvalda, vera nokkuð tilfinningalega tengdur félaginu og fylgjandi áframhaldandi rekstri.
Á mánudaginn var þegar tilkynnt var um sparnaðaráformin hafði Rickard Gustafson, forstjóri SAS, uppi þau orð að um lokaútkall væri að ræða. „Þetta er lokaútkallið, ef SAS á að lifa áfram. Við höfum fengið þetta lokatækifæri til að byrja upp á nýtt og koma þessum breytingum í gegn. Ég veit að þetta krefst mikils af starfsfólki okkar, en þetta er eina leiðin. Ég vona að hinir dyggu og trúu starfsmenn okkar hafi það sem þarf til þess að berjast fyrir því SAS lifi af og tryggi þar með störf sín.“
Þótt reksturinn virðist nú tryggður að sinni er ennþá mikið eftir óunnið og jafnvel óvissa með framtíðina. Þannig segir fréttastjóri Børsens viðskiptablaðsins í Danmörku að aðgerðirnar muni ekki duga til langs tíma heldur aðeins halda félaginu á flugi í 2 til 3 ár.