Talsverðar endurgreiðslur erlendra lána eru framundan hjá sveitarfélögum á næsta ári, og munu þær valda þrýstingi á gengi krónunnar, einkanlega á fyrri helmingi næsta árs. Að Lánasjóði sveitarfélaga meðtöldum, greiða sveitarfélögin 13,1 milljarða af erlendum lánum samkvæmt tölum Seðlabankans, en þar eru bæði vaxtagreiðslur og gjalddagar höfuðstóls lána meðtalið. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Til samanburðar áætlar Seðlabankinn að slíkar greiðslur nemi 10,8 milljörðum á yfirstandandi ári og því um nokkra hækkun að ræða. Tekur greiningardeildin fram að erlendar skuldir fyrirtækja í eigu sveitarfélaga eru hér undanskildar, þar á meðal skuldir Orkuveitu Reykjavíkur, sem einar og sér eru margfalt meiri en heildarskuldir A-hluta íslenskra sveitarfélaga.
Af einstökum sveitarfélögum ber Kópavog hæst hvað afborganir erlendra lána varðar. Bærinn þarf að greiða u.þ.b. 8,4 milljarða vegna erlendra skulda á næsta ári, enda er meginhluti erlendra lána hans þá á gjalddaga. Í lánshæfismati sem Reitun gaf út í júní á þessu ári kemur fram að lánin á gjalddaga séu annars vegar lán frá Dexia-bankanum og hins vegar lánasamningur við innlenda banka. Telur Reitun að hluti erlendu lánanna verði væntanlega endurfjármagnaður í krónum.
Samkvæmt Íslandsbanka eru erlendar skuldir Hafnarfjarðar enn miklar, og sé Orkuveita Reykjavíkur undanskilin frá skuldum Reykjavíkur er Hafnarfjörður skuldugast íslenskra sveitarfélaga með u.þ.b. 13,6 milljarða skuldir í erlendri mynt í lok síðasta árs. Gera má ráð fyrir að allt að 1 milljarðar séu á gjalddaga á næsta ári, en bærinn samdi um að stór hluti skulda yrði á gjalddaga árið 2015.
Af öðrum sveitarfélögum sem skulduðu talsverðar fjárhæðir í erlendri mynt um síðustu áramót má meðal annars nefna Akureyri (3,6 milljarðar), Fjarðabyggð (1,0 milljarðar), Akranes (770 milljónir), Fljótsdalshérað (560 milljónir.) og Árborg (502 milljónir).
Greiningardeildin segir að erlend lán sveitarfélaga hafi lækkað mikið á undanförnu. Um síðustu áramót hafi þau verið um 30 milljarðar og höfðu þá lækkað um 6 milljarða frá árinu á undan. Gert er ráð fyrir að þessi tala verið um 25 milljarðar við komandi áramót og í árslok 2013 verði hún komin niður í 15 til 17 milljarða. Þar sem sveitarfélögin hafa engar gjaldeyristekjur munu gjaldeyriskaup þeirra áfram setja þrýsting á gengi krónu