Íslenskur vampírutölvuleikur í Hollywood

Skjáskot úr nýja leiknum
Skjáskot úr nýja leiknum Plain Vanilla Games

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Plain Vanilla hefur í samstarfi við Summit Entertainment gefið út tölvuleikinn Twilight QuizUp, þar sem aðdáendur kvikmyndanna geta keppt sín á milli í Twilight fróðleik. Leikurinn er nú fáanlegur bæði á Apple App store og Google Play í kjölfar frumsýningar á Twilight Saga Breaking Dawn: Part 2, sem er lokakafli myndaflokksins.

Ný tækni í spurningaleikjum

Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri Plain Vanilla, segir að samstarfið við Summit Entertainment hafi gefið aðdáendum Twilight Saga tækifæri til þess að keppa í rauntíma sín á milli og komist að því hver er ástríðufyllsti aðdáandinn. Hann segir þetta einnig vera einstakt tækifæri fyrir fyrirtækið til að kynna notendur fyrir QuizUp tækninni sem fyrirtækið hefur verið að þróa undanfarið ár.

Hugmyndin að baki leiksins byggist á því að notendur tengi sig saman í gegnum kerfi QuizUp og svari í rauntíma spurningum um Twilight söguna. Þorsteinn segir að þetta sé ekki ósvipað og hraðaspurningar í Gettu betur, en leikmenn sjá frammistöðu sína í samhengi við frammistöðu annarra spilara. Segir hann að þetta sé eini spurningaleikurinn sem bjóði fram á rauntímaspilun enn sem komið er. 

Erfitt að fá fjárfesta á Íslandi

Plain Vanilla Games er tveggja ára gamalt íslenskt tölvuleikjafyrirtæki sem gaf út leikinn Moogies í fyrra og hlaut fyrir hann meðal annars verðlaun fyrir besta banatölvuleik Norðurlandanna það árið. Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að stefnan hafi í kjölfarið verið sett á aukna starfsemi og þróun á nýrri hugmynd af rauntíma spurningaleik, sem seinna varð að QuizUp tækninni. 

Það hafi aftur á móti gengið erfiðlega að finna fjárfesta hérlendis og því hafi hann ásamt tveimur forriturum haldið til San Fransisco í Bandaríkjunum þar sem þeir hafi haldið áfram með þróun verkefnisins, auk þess að leita að fjárfestum. Þorsteinn segir að hann hafi meðal annars átt fundi með öllum helstu kvikmyndaframleiðslufyrirtækjum Hollywood og þar hafi menn fljótlega sýnt tækninni áhuga. 

150 þúsund einstaklingum líkaði við leikinn

Þeir hafi svo hafið samstarf við Summit Entertainment sem Þorsteinn segir að hafi verið draumasamstarfsaðili, meðal annars vegna gífurlega stórs aðdáendahóps. Fyrirtækið er dótturfélag Lionsgate kvikmyndaversins, sem hefur meðal annars réttindi fyrir Twilight sögunni. Sem dæmi hafi tilkynning um leikinn verið sett á aðdáendasíðu sögunnar og þar hafi 150 þúsund einstaklingum líkað við tengilinn. Þorsteinn segir að það sé örugglega ekki langt frá því að vera íslandsmet á þessu sviði.

Hægt er að nálgast ókeypis útgáfu af leiknum hér

Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri Plain Vanilla Games
Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri Plain Vanilla Games Plain Vanilla Games
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK