Talsverðar breytingar eru nú orðnar á kjörum og vinnutíma flugfreyja og flugmanna flugfélagsins SAS eftir að samningar náðust á milli stéttarfélaga þeirra og félagsins í gær. En þessir samningar eru einungis hluti viðamikillar áætlunar sem á að bjarga SAS frá hrapi.
Eftir breytingarnar er vinnuvika flugmanna félagsins 47,5 klukkustundir á viku, en getur lengst vegna seinkana eða annarra ófyrirsjáanlegra atburða og má því fara upp í 60 klukkustundir í viku hverri.
Tom Heradstveit, flugstjóri hjá félaginu, sagði í samtali við Stavanger Aftenblad í gær að flugmennirnir þyrftu að vera því viðbúnir að vinna sex af hverjum átta helgum. „Svo mikil vinna um helgar, þegar flestir aðrir í samfélaginu eiga frí, er mikil byrði fyrir fólk.“
Heradstveit segir að launalækkun flugmanna verði um 10%, sem er nokkuð minna en upphaflega hugmyndir SAS hljóðuðu upp á, en þar var talað um 15%.
Frá stofnun SAS, árið 1946, hefur eftirlaunaaldur flugmanna hjá SAS verið 60 ár, en með nýju samningunum er hann 65 ár. Það sama mun gilda um eftirlaunaaldur flugfreyja og -þjóna eftir breytingarnar.
Nú, þegar samningar við starfsfólk eru komnir í höfn, hyggst SAS snúa vörn í sókn og mun á næstu mánuðum hefja flug á 30 nýja viðkomustaði og verður meirihluti þeirra vinsælir sumardvalarstaðir við Miðjarðarhafið. Þar með fer félagið í beina samkeppni við önnur félög sem hafa sinnt slíku flugi, eins og t.d. norska flugfélagið Norwegian. Það félag hyggst aftur á móti sækja af auknum krafti inn á markað SAS og hefur boðað Bandaríkjaflug á spottprís á komandi mánuðum.
Þá eru uppi hugmyndir um að skipta farþegarými í innanríkisflugi í tvö farrými; almennt og viðskiptafarrými.
En SAS er langt frá því að vera komið í örugga höfn, þó að samið hafi verið við starfsfólkið.
Það var einungis hluti björgunaráætlunarinnar 4XNG. Í henni felst einnig sala á ýmsum eignum félagsins og er vonast til að fyrir þær fáist a.m.k. 2,6 milljarðar danskra króna. Mestar vonir eru bundnar við sölu norska flugfélagsins Widerøe og flugþjónustufyrirtækisins SAS Ground Handling.