Ráðherra sendi flugfreyjum sms

AFP

Enn stendur styr um flugfélagið SAS, þrátt fyrir að tekist hafi að bjarga rekstri þess á elleftu stundu með því að fá starfsfólk til að samþykkja verulega kjaraskerðingu. Stjórnarformaður félagsins íhugar að segja af sér og danskar flugfreyjur og -þjónar eru Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Danmerkur, ævareið vegna afskipta af deilunni

Fritz Schur, stjórnarformaður SAS, íhugar að segja af sér í kjölfar þrenginga og niðurskurðar hjá félaginu. Þetta staðfestir hann í viðtali við Berlingske Business í morgun. Hann segir þar að ekki hefði verið hægt að skera niður fyrr í rekstri félagsins. Hann segist hafa stuðning stjórnarinnar til áframhaldandi stjórnarformennsku, en þrátt fyrir það sé ekki víst að hann bjóði sig fram áfram.

„Stjórn fyrirtækis ber auðvitað ábyrgð á því hvernig reksturinn gengur. SAS hefur verið á langri vegferð frá því að vera markaðsráðandi félag með ýmsa starfshætti og reglur varðandi laun, starfsskilyrði og yfirstjórn í þremur löndum og það var einfaldlega ekki hægt að halda því áfram,“ segir Schur í viðtalinu.

Fór yfir strikið

Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Danmerkur, er sagður hafa farið langt yfir strikið þegar hann þrýsti á forsvarsmenn danska flugfreyjufélagsins CAU að samþykkja niðurskurðarkröfur flugfélagsins SAS. Corydon sendi sms-skilaboð þar sem hann sagði framtíð flugfélagsins velta á samþykki danskra flugfreyja og -þjóna.

CAU samþykkti kröfurnar, sem fela meðal annars í sér launalækkun, lengri vinnutíma og skerðingu á lífeyrisréttindum.

Í skilaboðunum segir meðal annars: „Það er afgerandi fyrir framtíð félagsins (SAS) að danska starfsfólkið fylgi í fótspor allra annarra. Að öðrum kosti vofa endalok fyrirtækisins yfir. Það yrði sorglegt.“

Corydon sendi skilaboðin árla dags á mánudaginn, þegar CAU sat að samningaviðræðum við forsvarsmenn SAS. Þá var það eina félagið af átta stéttarfélögum flugfreyja, -þjóna og flugmanna SAS sem átti eftir að semja við félagið.

Flemming Ibsen, prófessor í vinnumarkaðsfræði við Álaborgarháskóla í Danmörku, segist skilja mætavel að Corydon hafi haft áhyggjur af gangi mála. „En hann hefði átt að vita að sending svona skilaboða gæti unnið meiri skaða en gagn. Þau gætu valdið streitu hjá samningafólki. Hann hefði átt að senda þeim skilaboð þar sem hann óskaði þeim góðs gengis,“ segir Ibsen í samtali við Epn.dk.

Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Danmerkur.
Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Danmerkur. www.fm.dk
Flugfreyja SAS að störfum.
Flugfreyja SAS að störfum. www.flysas.com
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK