Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur hefur styrkst verulega og mun auðvelda fyrirtækinu að greiða af skuldum sem hvíla á rekstrinum. Samkvæmt 9 mánaða uppgjöri 2012 var framlegð rekstursins 17,8 milljarðar króna og rekstrarhagnaður EBIT 11 milljarðar króna á tímabilinu. Á sama tíma í fyrra var rekstrarhagnaðurinn 9,3 milljarðar. Hlutfall milli framlegðar frá rekstrinum og skulda er nú orðið svipað og fyrir hrun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.
Aðgerðaáætlun Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda, „Planið“ var samþykkt vorið 2011 og felur í sér margvíslegar aðgerðir sem miða að því að bæta sjóðstöðu fyrirtækisins um 50 milljarða króna til ársloka 2016. Í yfirlýsingunni segir að á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 sé árangurinn um 1,2 milljörðum króna betri en gert er ráð fyrir í Planinu. Allir þættir Plansins eru á áætlun nema hvað eignasala hefur gengið hægar en ráð var fyrir gert.
Fjöldi fastráðinni starfsmanna er nú 418, en náði hámarki árið 2008 þegar þeir voru 607. Hlutfall kvenna meðal stjórnenda félagsins hefur einnig aukist mikið á þessu tímabili, en árið 2008 var það um 20% en er í dag um 42%.
Haft er eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitunnar, að sparnaðaráætlanir séu að ganga eftir sem muni koma til góða vegna gjalddaga á næsta ári.„Það kemur sífellt betur í ljós að sá mikli sparnaður, sem náðst hefur í rekstrinum er varanlegur. Starfsfólk og stjórnendur halda mjög vel vöku sinni við reksturinn og með því hefur afkoman stöðugt farið batnandi síðustu misseri. Planið er að ganga eftir og það er nauðsynlegt því á árinu 2013 eru stórir gjalddagar lána, sem Orkuveitan virðist nú í stakk búin að ráða við.“