MP banki hagnaðist um 370 milljónir

MP banki
MP banki

470 milljóna króna hagnaður varð af rekstri MP banka fyrstu 9 mánuði ársins fyrir skatta, samanborið við 847 milljóna króna tap árið 2011. Hagnaður eftir tekjuskatt og bankaskatta nam 372 milljónum króna. Þriðji ársfjórðungur skilaði bestu afkomu ársins en hagnaður fjórðungsins nam 270 milljónum króna fyrir skatta og 253 milljónum króna eftir skatt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum, en þar er einnig sagt frá því að útlánageta bankans muni tvöfaldast með fyrirhugaðri hlutafjáraukningu.

Heildareignir jukust um 46% fyrstu 9 mánuði ársins og námu 73,2 milljörðum króna í lok þess. Útlán hafa vaxið um 78% og námu 23,6 milljörðum króna. Innlán jukust jafnframt um 46% á tímabilinu og námu 53,5 milljörðum króna, að meðtöldum peningamarkaðslánum. Hreinar rekstrartekjur á þriðja ársfjórðungi 2012 námu 980 milljónum króna samanborið við 378 milljónir króna á þriðja fjórðungi síðasta árs. Eiginfjárhlutfall bankans er nú 14,3%, en lögbundið lágmarkshlutfall er 8%.

Haft er eftir Sigurði Atla Jónssyni, forstjóra bankans, að útlán til atvinnulífsins hafi aukist um 210% á árinu. „MP banki er að vaxa samkvæmt metnaðarfullum áætlunum og gott betur því nú hefur afkoma bankans verið jákvæð fjóra ársfjórðunga í röð. Við ætlum okkur að vera skýr fyrsti valkostur fyrir atvinnulífið og erum á góðri leið að því markmiði. Við höfum aukið útlán okkar til atvinnulífsins um 210% á rúmu ári eða um 16 milljarða.“

Segir hann að með fyrirhugaðri hlutafjáraukningu muni lánageta bankans aukast enn meira á næstunni. „Við gerum ráð fyrir því að útlán okkar til fyrirtækja muni aukast umtalsvert á næstunni nú þegar fyrirtæki sjá fram á að losna úr samningum við aðrar fjármálastofnanir og gengislán verða endurreiknuð í síðasta sinn. Útlánageta bankans er í dag um 25-30 milljarðar en mun aukast í um 50 milljarða eftir fyrirhugaða tveggja milljarða hlutafjáraukningu.“

MP banki
MP banki
Efnisorð: MP banki
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK