„Þarna er verið að tvöfalda virðisaukaskattinn á okkur, sem eru gífurleg vonbrigði.“ Þetta segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels, um ummæli Katrínar Júlíusdóttur, fjármálaráðherra, þess efnis að virðisaukaskattur á gistiþjónustu verði hækkaður í 14%.
Kristófer er fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar í starfshóp fjármálaráðherra um hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu. Hann segir að ferðaþjónustuaðilar hafi lagt fram vel útfærðar tillögur, sem hafi farið í gegnum stjórn samtakanna, um auknar skatttekjur fyrir ríkið á þessu sviði í stað prósentuhækkunar. Hingað til hafi ekki heyrst neitt frá stjórnvöldum, en ef tölurnar sem kynntar voru í morgun séu réttar, þá séu það mikil vonbrigði fyrir greinina.
Tímasetning hækkunarinnar er að sögn Kristófers enn jafn fráleit og áður, en hún lendir mest öll á hótelunum, þar sem búið er að semja við erlenda aðila fyrir næsta ár. Hann gagnrýnir jafnframt það mikla flækjustig sem þessar aðgerðir hafa, en nýja skattþrepið mun aðeins vera fyrir 608 lögaðila.
Hann segir að á sama tíma séu leyfislausir aðilar í greininni yfir 600 aðeins á Reykjavíkursvæðinu. Framvegis mun þetta þýða að morgunmaturinn verður seldur með 7% virðisaukaskatti, gistingin með 14% skatti og áfengi með 25,5%. Það sé því ekki verið að auðvelda hótelum sem selji allan pakkann saman.