Grunnur að vanda Íbúðalánasjóðs lagður 2004

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Golli

Vandi Íbúðalánasjóðs er ekki nýtilkominn en grunnur að honum var lagður árið 2004 þegar gerð var kerfisbreyting á sjóðnum. Þetta er mat IFS greiningar sem telur að leggja þurfi sjóðnum til aukið fé á næstu árum.

Nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins fór þess á leit við IFS greiningu að meta áhættu í rekstri Íbúðalánasjóðs og eiginfjárþörf hans til næstu ára.

IFS greining segir að grunnur að vanda Íbúðalánasjóðs hafi verið lagður árið 2004 með kerfisbreytingu  sem þá var gerð á sjóðnum. „Frá þeim tíma hefur sjóðurinn verið með opna vaxtaáhættu/uppgreiðsluáhættu sem lýsir sér í að skuldir sjóðsins eru óuppgreiðanlegar meðan útlán sjóðsins eru það ekki. Þessi áhætta er stærsta áhætta sjóðsins að mati IFS. Jafnframt hefur ÍLS kynnst þeim vandamálum sem fall bankanna, gengisfall krónunnar og meðfylgjandi efnahagsþrengingar hafa valdið lánþegum. Vanskil hafa aukist og eru margföld sem hlutfall af heildareignum frá því sem áður var, fullnustueignum hefur fjölgað hratt og stefnir allt í að þeim fjölgi ennfrekar. Framlög á afskriftareikning útlána hafa verið veruleg frá hruni 2008, líkt og hjá öðrum lánafyrirtækjum hér á landi, þótt endanlega afskrifuð útlán séu enn sem komið er tiltölulega lág fjárhæð en fer hækkandi.“

Eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóð var við árshlutauppgjör í lok júní 2012 aðeins 1,4%, samanborið við lögbundið lágmark upp á 4% og 5% langtíma markmið. IFS greining segir að núverandi eiginfjárstöðu þurfi að leiðrétta með eiginfjáraukningu frá ríkissjóði.

IFS greining segir að nýsamþykkt lög um húsnæðismál hafi markað stefnu, hlutverk og tilgang sjóðsins til framtíðar, en þau hafi jafnframt þrengt að rekstrarhæfi hans. Mikil óvissa er því um afkomu sjóðsins á næstu árum en flest bendir til, að öðru óbreyttu, að hann muni skila rekstrartapi sem leiðir til aukinnar þarfar á viðbótar eiginfjárframlagi. Stofnfé sjóðsins hefur verið aukið um 33 milljarða og fyrir liggur að hann þurfi á enn frekara framlagi að halda.

Vanskil sjóðsins eru mikil og undirliggjandi höfuðstóll lána sem eru að hluta til í vanskilum er um 15-20% af heildarútlánum. Mat IFS er að auka þurfi framlag á afskriftareikning útlána, einkum vegna útlána til einstaklinga. Þá þarf að fara fram nánari skoðun á útlánum til lögaðila.

Það er mat IFS að nauðsynleg fyrstu skref til að gera sjóðinn að sjálfbærri og arðsamri rekstrareiningu séu:
 Fullnustueignir sjóðsins eru nokkuð yfir 2.000 og fer fjölgandi. Fullnustueignir og tilsvarandi hlutfall af skuldum sjóðsins verða fluttar yfir til félags í eigu og með fjárhagslega ábyrgð ríkisins.
 Tryggja þarf samræmi og sveigjanleika á eignum og skuldum til að mæta þeim markaðsaðstæðum sem upp geta komið hverju sinni án teljandi vandkvæða, s.s. breytingum á markaðsvöxtum og uppgreiðsluhraða útlána. Hluti af þessari aðgerð væri að loka fyrir frekara fjárhagstjón vegna hugsanlegra uppgreiðslna.
 Auka þarf strax, en a.m.k. á næstu 2-3 árum, virðisrýrnun útlána, en samhliða þarf að undirbúa og kynna fyrir málsaðilum að þá fjárhæð getur þurft að endurskoða og þá frekar til hækkunar en lækkunar.
 Fara þarf í sérstakar hagræðingaraðgerðir með það að leiðarljósi að lækka kostnað og auka tekjur að því marki sem hægt er. Koma þarf vanskilum í skil og veita svigrúm til samninga.
 Þessi skref eru mikilvæg í þeim tilgangi að vinna á þeim mikla vanda sem sjóðurinn er í nú. Líklegt er að þau muni duga en vegna mikillar óvissu um útfærslu einstakra mála og þróun ytri aðstæðna eru þau mögulega ekki nægjanleg til að tryggja afkomu sjóðsins um ókomna tíð. Eftir stæði hinsvegar sjóður með mun meiri vissu um hver raunveruleg staða hans væri til framtíðar og á sama tíma geta hans til að uppfylla markmið eiganda.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK