Kauphöllin hefur aftur opnað fyrir viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs, en í morgun voru viðskipti með þau stöðvuð vegna ummæla Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar Alþingis, í frétt hjá Bloomberg-fréttastofunni um ríkisábyrgð á lánum Íbúðalánasjóðs.
Landsbréf hf. hafa einnig ákveðið að opna fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini sjóða sem eiga Íbúðabréf útgefin af Íbúðalánasjóði. Í tilkynningu frá Landsbréfum segir að fylgst verði vel með framvindu mála í dag, sérstaklega þar sem ljóst sé að ekki muni verða viðskiptavakt með Íbúðabréf í dag.