Ummæli Sigríðar stöðvuðu viðskipti

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs voru stöðvuð í morgun vegna ummæla Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðarnefndar Alþingis, í frétt hjá Bloomberg-fréttastofunni um ríkisábyrgð á lánum Íbúðalánasjóðs.

Sigríður Ingibjörg sagði í samtali við Bloomberg að afnema þyrfti ríkisábyrgð á skuldum Íbúðalánasjóðs.

Vegna þessara ummæla sendi Íbúðalánasjóður frá sér yfirlýsingu þar sem segir: „Haft er eftir formanni velferðarnefndar Alþingis að  Íbúðalánasjóður þurfi  að endursemja um skilmála skulda sinna og þar með að fá eigendur skuldabréfanna til að samþykkja skilmálabreytingu sem heimilaði sjóðnum uppgreiðslu skulda sinna.

Tekið skal fram að ekki er unnið að breytingu á skilmálum skuldabréfa Íbúðalánasjóðs og engar ákvarðanir um slíkt hafa verið teknar, enda er slík skilmálabreyting óframkvæmanleg nema í fullu samstarfi við eigendur fjármögnunarbréfa sjóðsins.“

 Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs eru stöðvuð tímabundið. Í fyrra skipti var það vegna fréttar í Viðskiptablaðinu um að stjórnvöld væru að skoða að breyta ákvæðum í skuldabréfum sjóðsins.

Samkvæmt Morgunkorni greiningar Íslandsbanka eru helstu eigendur skuldabréfa Íbúðalánasjóðs  lífeyrissjóðir og innlendir verðbréfasjóðir. Þannig nam eign lífeyrissjóða í íbúðabréfum 574 milljörðum kr. í lok september.

„Sjóðirnir eiga því mikilla hagsmuna að gæta varðandi það hvernig leyst verður úr málum ÍLS. Fréttaflutningur morgunsins endurspeglar hins vegar í hnotskurn einn meginvanda ÍLS: Að skuldbindingar sjóðsins eru ekki innkallanlegar á meðan verulegur hluti útlána hans er hins vegar uppgreiðanlegur. Breytt vaxtaumhverfi hefur dregið þennan vanda fram í dagsljósið og ólíklegt er að hann hverfi á næstunni hvað sem líður eiginfjárframlagi til sjóðsins,“ segir í Morgunkorni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK