Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt að nýta sér heimildir til að lækka gatnagerðargjöld og fella niður byggingarréttagjöld á lóðum undir atvinnuhúsnæði. Með þessu vill Mosfellsbær hvetja fyrirtæki og atvinnurekendur til fjárfestinga og stuðla að því að bærinn verði fyrsti valkostur þeirra sem eru með uppbyggingu í huga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum, en einnig verður boðið upp á fjármögnun vegna lóðanna. Þetta er í fyrsta skipti sem Mosfellsbær býður upp á slík kjör.
Haft er eftir Haraldi Sverrissyni bæjarstjóra að vonir standi til að þetta muni ýta við hjólum atvinnulífsins. „Það er von okkar að með því að koma á móts við atvinnurekendur og fjárfesta með þessum hætti muni hjól atvinnulífsins fara að snúast og að áframhaldandi uppbygging í bænum komi íbúum Mosfellsbæjar til góða.“
Lóðirnar sem um ræðir eru annars vegar við Sunnukrika sem er nýtt svæði undir atvinnustarfsemi og liggur við Vesturlandsveg. Hins vegar á athafnasvæði við Desjarmýri í útjaðri bæjarins næst höfuðborginni.
Nokkur uppbygging á sér stað í bænum sem stendur, en fjórar stórar byggingarframkvæmdir eru í gangi. Þar á meðal er 30 rýma hjúkrunarheimili sem er í byggingu við Langatanga, en starfsemi mun hefjast þar á næsta ári. Þá er verið að innrétta þjónustumiðstöð fyrir aldraða við Eirhamra og verður hún einnig tekin í notkun á næsta ári.
Bygging framhaldsskóla við Háholt er í einnig í gangi og áætlað er að húsið verði tilbúið snemma á árinu 2014. Að lokum er íþróttahús undir fimleika og bardagaíþróttir á íþróttasvæðinu við Varmá í útboðsferli og munu framkvæmdir hefjast eftir áramótin. Þessar framkvæmdir eru samtals ríflega 8 þúsund fermetrar og áætlað er að fjárfesting við þær nemi um 2,5 milljörðum króna.