Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% í nóvember frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% frá október. Er það við hærri mörk sem greiningardeildir höfðu spáð.
Verð á bensíni og dísilolíu lækkaði um 2,9% (vísitöluáhrif -0,17%) en verð á dagvörum hækkaði um 0,8% (0,13%) og verð á flugfargjöldum til útlanda hækkaði um 8,3% (0,13).
Innlegndar vörur og grænmeti hafa hækkað um 6,6%
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 4,5% og vísitalan án húsnæðis um 5,2%. Hefur verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili ekki verið jafn mikil síðan í júlí er hún mældist 4,6%.
Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,4% sem jafngildir 5,6% verðbólgu á ári (7,5% verðbólgu á ári fyrir vísitöluna án húsnæðis), segir í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Undanfarna tólf mánuði hafa búvörur og grænmeti hækkað um 7,1% í verði og innlendar vörur og grænmeti hafa hækkað um 6,6%. Innlendar vörur án búvöru hækkuðu um 6,2% síðasta árið en innfluttar vörur hafa hækkað um 3,6% síðstliðna tólf mánuði. Hækkun dagvöru á sama tímabili nemur 6,1%.
Verðbólgan nú er í samræmi við spár markaðsaðila en þeir reikna með að verðbólga á fjórða fjórðungi þessa árs verði 4,5% og 4,2% á fyrsta fjórðungi næsta árs, samkvæmt væntingakönnun Seðlabanka Íslands sem var birt þann 19. nóvember sl.