Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemdir við starfshætti Arion banka í tengslum við endurskipulagningu og síðar gjaldþrot B.M. Vallár hf. Þetta er niðurstaða athugunar eftirlitsins sem birt var í gær.
Víglundur Þorsteinsson, fyrrverandi stjórnarformaður B.M. Vallár. óskaði eftir því að FME myndi skoða starfshætti bankans en á blaðamannafundi hinn 20. ágúst sagði Víglundur að stjórnvöld hefðu ekki farið eftir reglum neyðarlaganna og Arion banki mismunaði skuldunautum sínum í uppgjöri við bankann eftir efnahagshrunið. „Líklegt er að ráðherrar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, einstakir starfsmenn nýju bankanna á blaðamannafundinum.
Sjá frétt mbl.is - Víglundur óskar eftir rannsókn FME
„FME óskaði eftir upplýsingum og sjónarmiðum Arion banka hf. vegna málsins. Meðal þess sem óskað var eftir voru upplýsingar um verklag bankans og viðmið sem lögð voru til grundvallar við mat á því hvort samþykkja ætti endurskipulagningu fjárhags skuldara eða hvort fara ætti fram á gjaldþrotaskipti. Bæði var óskað eftir almennum upplýsingum um framangreint og sérstaklega í tengslum við B.M. Vallá hf.
Einnig var óskað eftir upplýsingum og sjónarmiðum bankans vegna umfjöllunar um að samningur milli „gamla Kaupþings“ og Nýja Kaupþings banka hf. um skilyrtan virðisrétt, eða viðaukar við þann samning, hafi innihaldið upptalningu á fyrirtækjum sem fyrirfram hafi verið ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta yfir óháð því hvort líklegt væri að fjárhagsleg endurskipulagning væri möguleg.
Svör Arion banka hf. við fyrirspurnum FME voru ítarleg og studd viðeigandi gögnum. Kom þar m.a. fram lýsing á tilraunum til endurskipulagningar fjárhags B.M. Vallár hf. ásamt umfjöllun um aðdraganda gjaldþrots þess þegar tilraunir til endurskipulagningar höfðu ekki borið tilætlaðan árangur.
Arion banki hf. hafnaði því að samningur bankans við „gamla Kaupþing“ um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir félög sem fyrirfram hafi verið ákveðið að gera gjaldþrota og rökstuddi bankinn þá afstöðu.
Að lokinni yfirferð þeirra gagna sem bárust frá Arion banka hf. var það niðurstaða FME að ekki væri tilefni til athugasemda við starfshætti bankans í tengslum við tilraunir til endurskipulagningar og síðar gjaldþrot B.M. Vallár hf. Þá telur FME að ekkert í þeim gögnum sem eftirlitið yfirfór við athugunina renni stoðum undir fullyrðingar þess efnis að áðurnefndur samningur um skilyrt virðisréttindi hafi innihaldið lista yfir fyrirtæki sem fyrirfram hafi verið ákveðið að krefjast gjaldþrotaskipta á.
Að teknu tilliti til framangreinds hefur FME lokið athugun á starfsháttum Arion banka hf. í tengslum við endurskipulagningu og síðar gjaldþrot B.M. Vallár hf. án athugasemda,“ segir á vef FME.