Helmingur sleppur við skattinn

Samhliða mikilli fjölgunar ferðamanna hefur gistiþjónusta aukist mikið. Margir þjónustuaðilar …
Samhliða mikilli fjölgunar ferðamanna hefur gistiþjónusta aukist mikið. Margir þjónustuaðilar virðast hins vegar komast hjá skattgreiðslum Morgunblaðið/Ómar

Stór hluti gistináttaskatts, sem settur var á um síðustu áramót, skilar sér ekki til ríkissjóðs. Samkvæmt opinberum tölum ber um 50% út af þegar tekið er mið af hótelum og gistiheimilum og öðrum gistiþjónustuaðilum sem einnig eiga að greiða skattinn. Hótelrekandi segir að þeir sem ekki vilji greiða skattinn komist upp með það og gagnrýnir um leið stjórnvöld fyrir að taka ekki á leyfislausum gistiþjónustuaðilum þar sem hægt væri að sækja töluverðar skatttekjur.

Gistináttaskattur sem innheimtur var á fyrstu sex mánuðum ársins nam 56 milljónum. Þetta kom fram í svari fjármálaráðherra á Alþingi vegna skattsins fyrr á árinu. Kristofer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels, hefur ýmislegt út á þessa niðurstöðu að setja og segir hana benda til þetta gjald skili sér illa og afhjúpi djúpstætt vandamál í gistiþjónustu hérlendis þar sem aðilar fái að komast upp með að halda úti leyfislausri starfsemi og greiða ekki skatta.

600 leyfislausir aðilar í Reykjavík

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru seldar 771 þúsund gistinætur hérlendis á heilsárshótelum á fyrri hluta ársins. Gistináttaskatturinn er 100 krónur á hverja gistináttaeiningu og því ættu um 77 milljónir að hafa skilað sér í ríkiskassann á tímabilinu. Út frá svari ráðherra má aftur á móti sjá að rúmlega 20 milljónir vantar þarna upp á, aðeins hjá heilsárshótelum, eða um 27% af heildinni. Þetta er áður en tekið er tillit til þess að gistináttaskatturinn á einnig við um sumarhótel, gistiheimili, gistingu í húsum, íbúðum, húsbílum, sumarhúsum og á tjaldsvæðum. Að teknu tilliti til þess má áætla að helmingur sleppi við skattinn að sögn Kristofers.

Til viðbótar við þetta bætist að mikið er um óleyfilega gistiþjónustu hér á landi. Samtök ferðaþjónustu hafa lengi fylgst með óleyfilegri gistiþjónustu og samkvæmt lauslegri talningu nú bjóða allavega 600 aðilar í Reykjavík upp á óskráða þjónustu og 900 á landinu öllu. Þar er þó ekki tekið mið af því hvort fleiri en eitt herbergi eru í útleigu og gæti því tala herbergja verið töluvert hærri.

Aðeins helmingur greiðir skattinn

Heildarfjöldi skráðra herbergja í gistiþjónustu var við síðustu áramóti 9.863 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Samkvæmt því eru Centerhotels með um 4,2% af heildarfjölda herbergja í greininni hérlendis, en ef seld tjald- og húsbílapláss, útleiga á sumarbústöðum og óleyfileg gistipláss eru tekin með fer þetta hlutfall niður í um 3%.

Á fyrri hluta ársins greiddu Centerhotels 4,3 milljónir í gistináttagjald til ríkissjóðs, eða um 7,7% af heildarskattheimtunni. Miðað við markaðshlutdeild ætti þessi tala að vera allavega helmingi lægri að sögn Kristofers og sýnir fram á að aðeins helmingur þeirra sem eigi að greiða skattinn standi skil á því. Hann segist ekki hafa trúað þessu þegar hann skoðaði tölurnar. „Ég athugaði fyrst hvort ég hefði gert einhverjar villur og greitt of mikið.“ Þegar hann komst að því að allt var rétt í útreikningum hans fór hann að skoða í hverju þessi munur fælist.

„Þeir greiða bara sem vilja“

„Þetta sýnir greinilega að meira en helmingur þeirra sem veita þessa þjónustu hérlendis kemst upp með að greiða ekki gistináttagjaldið.“ Að hans mati mun þetta brjóta niður siðferðisvitundina í greininni og það sé ljóst að „þeir greiða bara sem vilja“.

Kristofer gagnrýnir einnig fyrirkomulag skattsins og óhagkvæmni fyrirkomulagsins. Segir hann að mikill kostnaður sé bæði hjá ríkinu og þjónustuaðilum vegna þessa og hlutfallslega sé innkoman lítil. Þegar skatturinn var settur á á sínum tíma tók ríkisskattstjóri í sama streng og haft var eftir honum í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins: „Gistináttaskattur verður dýr í framkvæmd og eftirlit með honum erfitt og hlutfallslega dýrt“, en einskiptiskostnaður vegna skattsins var 14 milljónir auk þess að bæta þurfti við einu starfsgildi hjá Ríkisskattsstjóra.

„Krafan hlýtur að vera heilbrigt rekstrarumhverfi áður en farið verður í frekari skattahækkanir. Það kemur vel í ljós í þessum tölum að ráðast þarf gegn svartri atvinnustarfssemi í greininni og að aukalegir skattar sem lagðir eru á virðast ekki skila sér og lenda aðeins á hinum heiðarlegu sem hafa farið í gegnum töluverðar hremmingar síðustu árin,“ segir Kristofer, en ljóst er að stór hluti gistináttaskattsins skilar sér aldrei í ríkiskassann.

Kristofer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels
Kristofer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels
Hótel Skjaldbreið er meðal hótela sem rekin eru undir merkjum …
Hótel Skjaldbreið er meðal hótela sem rekin eru undir merkjum Centerhotels
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK