Skaðabótamál bræðranna Vincent og Robert Tchenguiz gegn efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office, verður þingfest í London í fyrramálið. Fara þeir fram á skaðabætur fyrir að hafa verið handteknir af lögreglu í tengslum við rannsókn SFO á Kaupþingi.
Í frétt á vef Telegraph í kvöld kemur fram að ekki sé vitað hvað muni koma fram við þingfestinguna á morgun, þá hafi Daily Telegraph heimildir fyrir því að skaðabótakrafan gæti verið hærri en þær 100 milljónir punda, 20 milljarðar króna, sem Vincent Tchenguiz hótaði að krefja stofnunina um í bréfi til fyrrverandi forstjóra SFO, Richard Alderman.
Sú fjárhæð tengdist einungis handtöku Vincents en síðan hann gerði kröfu á stofnunina hefur dómari komist að þeirri niðurstöðu að SFO hafi gert fjölmörg mistök við rannsóknina á Tchenguiz-bræðrum. Þykir það styrkja stöðu þeirra bræða mjög í skaðabótamálinu, samkvæmt frétt Telegraph.
Er talið að málið geti varpað ljósi á stöðu Alderman í málinu sem og hlut endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton sem veitti flestar þeirra upplýsinga sem SFO byggði rannsókn sína á.