Svissneski bankinn UBS er nálægt því að semja við bandarísk og bresk yfirvöld um að greiða 450 milljónir Bandaríkjadollara, eða sem nemur um 56 milljörðum íslenskra króna vegna þátttöku í Libor-vaxtasvindlinu. Fyrr í haust komst málið í hámæli þegar Barclays bankinn greiddi einnig 450 milljónir dollara fyrir sína aðkomu að málinu.
Þetta eru ekki einu slæmu tíðindin frá bankanum á síðustu árum, en 2009 samþykkti bankinn að borga 780 milljónir dollara til bandarískra yfirvalda til að komast hjá lögsóknum þar að lútandi að bankinn hefði aðstoðað ríka einstaklinga við að komast hjá skattgreiðslum. Árið 2011 var það svo tilkynnt að bankinn hefði tapað 2,3 milljörðum punda, eða sem nemur um 280 milljörðum íslenskra króna, vegna svika verðbréfamiðlara hjá bankanum. Miðlarinn, Kweku M. Adoboli, hlaut í nóvember 7 ára fangelsi fyrir brot sín, en í dómnum kom fram að hann hefði stundað svik og fjárhættuspil með fé bankans.