Lárus Ásgeirsson, fráfarandi forstjóri Icelandic group, segir að það hafi verið sameiginleg ákvörðun hans og stjórnar að hann færi frá. Hann segist horfa til matvælaframleiðslugeirans varðandi næstu skref, en hann hefur langan starfsferil að baki á þeim vettvangi.
Í morgun var tilkynnt að Magnús Bjarnason tæki við forstjórastarfinu hjá Icelandic group, en Lárus var ráðinn til fyrirtækisins fyrir rúmlega einu ári. Lárus segir það hafa verið sameiginlega ákvörðun og að ekki hafi verið uppi neinn ágreiningur milli hans og stjórnar varðandi næstu skref í rekstri Icelandic.
„Auðvitað horfir maður til lengri tíma, en í fyrirtækjum sem eru í miklum breytingum þá geta hlutir þróast með ýmsum hætti,“ segir Lárus, en eftir sölu eigna í Bandaríkjunum, Frakklandi og Spáni á síðasta ári segir hann að fyrirtækið hafi þurft stöðugleika. „Það var mikilvægt að byggja upp stöðugleika og skerpa á fókus félagsins og styrkja einingar þess.“ Hann segir að ró og festa hafi náðst og næstu skref séu að þróa félagið áfram. Lárus segir Magnús vera mjög hæfan í það verk, en hann hafi mikla reynslu af alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Aðspurður hvort eitthvert annað starf bíði hans segist hann vera að skoða stöðuna. Lárus hefur mikla reynslu úr matvælaframleiðslu, en hann vann í langan tíma hjá Marel, áður en hann fór yfir til Sjóvár og svo aftur til Icelandic. Hann segir að hann horfi nú helst til þessa geira, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um næstu skref.