Magnús ráðinn forstjóri Icelandic Group

Magnús Bjarnason.
Magnús Bjarnason.

Magnús Bjarnason hefur verið ráðinn forstjóri  Icelandic Group og tekur hann við starfinu af Lárusi Ásgeirssyni. Magnús var áður hjá Landsvirkjun þar sem hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs. Hann var áður framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Glitnis og leiddi þjónustu bankans við alþjóðleg orku- og sjávarútvegsfyrirtæki. Magnús hefur víðtæka reynslu af árangursríku starfi á alþjóðamörkuðum og þekkingu á sjávarútvegi. Hann var meðal annars viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada og staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Kína. Magnús hefur setið í stjórn Icelandic Group. Hann tekur við starfinu af Lárusi Ásgeirssyni sem gegnt hefur starfinu frá 2011.

 Herdís Fjeldsted, stjórnarformaður Icelandic Group, segir að unnið hafi verið að  fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu fyrirtækisins. „Tækifæri félagsins eru mikil og við hlökkum til að takast á við þær áskoranir sem þeim fylgja og fögnum því að fá Magnús til liðs við þann öfluga hóp sem starfar hjá Icelandic Group.“

 Magnús Bjarnason, forstjóri Icelandic Group segist í tilkynningu hlakka til að takast á við nýtt starf. „Það er mikil gerjun í sjávarútvegsgeiranum og Icelandic Group er í góðri stöðu til að nýta sér þau tækifæri sem myndast við slíkar aðstæður.“

 Frá mars 2010 hefur Magnús verið framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar Landsvirkjunar þar sem hann hefur leitt vinnu við að móta stefnu fyrirtækisins í leit nýrra viðskiptavina með það að markmiði að auka fjölbreytni og styrkja tekjustoðir fyrirtækisins. Hann var áður framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Glitnis þar sem hann leiddi starfsemi bankans í alþjóðlegum orku og sjávarútvegi og framkvæmdastjóri Glacier Securities ráðgjafafyrirtækis á sviði sjávarútvegs í New York. Magnús starfaði í utanríkisþjónustunni frá 1997 til 2005; hann var viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum og Kanada, og síðar sendifulltrúi og staðgengill sendiherra í sendiráði Íslands í Kína. Hann lauk BS-prófi í viðskiptafræði og MBA frá Thunderbird School of Global Management, segir í tilkynningu frá Icelandic Group.

 Icelandic Group er alþjóðlegt fyrirtæki með nærri sjö áratuga sögu í íslenskum sjávarútvegi. Félagið starfar bæði á smásölumarkaði og á markaði fyrir veitingahús, mötuneyti og stofnanir. Icelandic Group framleiðir og selur ferskt, kælt og fryst sjávarfang um heim allan en á undanförnum árum hefur vöruþróun verið efld á sviði flóknari og virðisaukandi fiskmáltíða fyrir smásölumarkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK