Sala á jólabjór hefur dregist saman um 6,4% miðað við söluna í fyrra. Sala á bjór almennt hefur á sama tíma aðeins minnkað um 0,9%. Þetta kemur fram þegar sölutölur Vínbúðarinnar fyrir 15. nóvember til 3. desember eru skoðaðar. Þess skal getið að ekki er tekið mið af því í þessum tölum hvort fleiri frídagar lenda innan tímabilsins heldur en í fyrra.
Tuborg Christmas Brew er söluhæsti bjórinn og ber höfuð og herðar yfir aðra þegar kemur að seldu magni með um 44% markaðshlutdeild. Víking jólabjórinn, sem er næstsöluhæstur, hefur selst helmingi minna en Tuborg-bjórinn.
Þegar breyting söluhæstu bjóranna er skoðuð kemur í ljós að samdrátturinn í sölu Jólagulls er um 30% og hjá Kalda Jólabjór er hún 23%. Sala á Víking Jólabjór hefur dregist saman um 8% og Tuborg um tæplega 6%. Á móti kemur að nokkrar nýjar tegundir hafa komið í hillur Vínbúðarinnar síðan í fyrra.