Um 61% aukning varð á farþegafjölda til landsins í nóvember miðað við sama tíma í fyrra. Væntanlega skýrist þetta að hluta af því að Iceland Airwaves hátíðin fór fram í nóvember í ár en í október í fyrra að mati greiningardeildar Íslandsbanka. Þó er ljóst að þrátt fyrir að fjöldatölur um erlenda gesti Airwaves væru teknar út fyrir sviga væri samt um gríðarlega aukningu að ræða.
Um 37.000 erlendir gestir fóru frá landinu um Leifsstöð í nóvember og er hér um að ræða langstærsta nóvembermánuð frá upphafi í fjölda þeirra. Voru þeir þar með um 14.000 fleiri nú í nóvember en í sama mánuði fyrra. Þegar litið er á árið í heild má sjá að erlendum ferðamönnum fjölgar hlutfallslega mun meira utan háannartímans, sem hlýtur að teljast jákvætt þar sem með því dregur heldur úr árstíðarsveiflu í ferðamannastraumi til landsins. Eftir sem áður koma þó langflestir ferðamenn til Íslands yfir sumartímann.
Brottfarir erlendra ferðamanna eru nú komnar upp í 618.900 á fyrstu ellefu mánuðum ársins, en á sama tímabili í fyrra var fjöldi þeirra 519.900. Jafngildir þetta aukningu upp á rúm 19% milli ára, eða rúmlega 99.000 ferðamenn. Eru erlendir ferðamenn þegar orðnir mun fleiri en þeir voru allt árið í fyrra, en þá voru þeir 540.800 á árinu í heild.
Ef þróunin í desember verður í takti við það sem hún hefur að jafnaði verið á þessu ári stefnir fjöldi erlendra ferðamanna í að verða að minnsta kosti 640 þúsund á þessu ári. Þá er ekki horft til þess að um 4% erlendra gesta koma með öðrum hætti til landsins en gegnum Leifsstöð, svo sem um aðra flugvelli, með Norrænu og öðrum skipum. Segir greiningardeildin að ef svo verði raunin á þessu ári megi áætla að heildarfjöldi erlendra gesta á árinu verði nær 670 þúsund, en mest hefur heildarfjöldinn hingað til farið upp í 566 þúsund sem var í fyrra.