Bandarískir eigendur Íslenskrar erfðagreiningar hafa komið með meira en 5,5 milljarða króna í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans það sem af er ári til að fjármagna innlendan rekstur og fjárfestingar fyrirtækisins.
Í upphafi síðasta mánaðar samþykkti stjórn ÍE að gefa út tæplega 413 milljóna króna skuldabréf til að fjármagna rekstur félagsins. Skuldabréfið, sem ber enga vexti og höfuðstólinn á að greiða í heilu lagi tíu árum síðar, var selt til bandarískra fjárfesta sem keyptu fyrirtækið 2010 eftir að móðurfélagið DeCode fór í greiðslustöðvun.
Þetta er í annað skipti á þessu ári sem hluthafar ÍE nýta sér fjárfestingaleið Seðlabankans. Frá því var greint í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í septembermánuði síðastliðnum að þeir hefðu fjármagnað 5,1 milljarðs skuldabréfaútgáfu ÍE með sama hætti í febrúar á þessu ári.