Fjármagnshöftin og það haftakerfi sem er byggt upp í kringum bjagar alla hvata kerfisins og leiðir fyrirtæki í offjárfestingu á alþjóðlegum verðmætum. Í stað þess að auka umsvif sín á sem hagkvæmastan hátt, þá fara þau frekar að auka umsvifin með tilliti til þess hvort að tækin og fjárfestingin hafi alþjóðlegt verðgildi. Þetta segir fjárfestirinn Heiðar Guðjónsson í samtali við mbl.is.
Segir hann fyrirtæki í auknum mæli huga að seljanleika fjárfestinga í erlendum gjaldeyri fremur en notagildi hérlendis. Meðal annars sé ákjósanlegt fyrir eigendur fyrirtækja að færa lausafjármuni yfir í slíka fjárfestingu, þar sem hægt sé að fá erlendan gjaldeyri þó illa færi hérlendis. Nefnir hann í þessu samhengi vinnuvélar, skip og flugvélar sem séu allt auðseljanleg alþjóðleg verðmæti.
Aðspurður hvort nýleg kaup Icelandair á Boeing-flugvélum falli þarna undir segir Heiðar að hann vilji ekki setja kaupin undir þann hatt, en segir þetta þó væntanlega að einhverju leyti hafa áhrif á allar fjárfestingar hérlendis. „Þó það sé óvissa um framtíðina, þá er betra að eiga flugvélar en krónur,“ segir Heiðar, en hann telur víst að margir fyrirtækjarekendur horfi á málið með þessum augum. „Ef ég væri að stýra fyrirtæki myndi ég þurfa að hugsa svona.“
Fyrirtæki sem vilja fjárfesta í tækjum í dag þurfa að fá undanþágu frá fjármagnshöftum Seðlabankans. Bankinn getur heimilað eða neitað fyrirtækjum um slíkar fjárfestingar eftir því hvort talið sé að þær falli undir heimildir fjármagnshaftanna eður ei, en erfitt getur reynst að sannreyna tilgang fjárfestinga.
Að mati Heiðars fær bankinn með þessu visst vald til þess að ákveða hvaða fjárfestingar fái að fara fram og hverjar ekki. „Ef Seðlabankinn ætlar að fara að stýra hvaða fyrirtæki fær að stunda hvaða fjárfestingar, af hverju tekur hann ekki bara yfir atvinnulífið? Þetta leiðir af sér algjöra miðstýringu efnahagslífsins af fólki sem er ekki einu sinni kosið til starfsins og hefur yfirlýst sjálfstæði samkvæmt lögum frá þinginu.“