Meðal stærstu líftæknifyrirtækja heims

Amgen, nýr eigandi Íslenskrar erfðagreiningar
Amgen, nýr eigandi Íslenskrar erfðagreiningar AMGEN/PR NEWSWIRE

Bandaríska fyrirtækið Amgen, sem nú hefur keypt starfssemi Íslenskrar erfðagreiningar, er meðal stærstu líftæknifyrirtækja í heimi. Það er með um 17 þúsund starfsmenn, þar af um 7 þúsund í höfuðstöðvunum í Thousand Oak í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Félagið er skráð í Nasdaq kauphöllina og er meðal þeirra fyrirtækja sem eru í Nasdaq 100 vísitölunni, en þar eru hundrað stærstu fyrirtækin í kauphöllinni sem ekki eru fjármálafyrirtæki.

Yfirtaka á Íslenskri erfðagreiningu er sú sjöunda á 2 árum hjá Amgen. Það hefur yfirtekið sex fyrirtæki árin 2011 og 2012, þar af fjögur í ár. Þeir höfðu þá ekki keypt fyrirtæki síðan árið 2007, en þá voru keypt tvö. Fyrsta yfirtaka Amgen var árið 1994 en Amgen var stofnað árið 1980. Markaðsvirði fyrirtækisins er 67,8 milljarðar Bandaríkjadollara, eða sem nemur um 8600 milljörðum íslenskra króna.

Í lok árs 2009 óskaði deCODE, móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar eftir greiðslustöðvun í Bandaríkjunum. Í framhaldinu var undirritaður samningur við bandaríska félagið Saga Investments LLC um kaup á Íslenskri erfðagreiningu og allri starfsemi þess. Eigendur Saga Investment eru fjárfestingarfélag í eigu Polaris Venture Partners og Arch Venture Partners, en bæði félögin eru þekktir fjárfestar í Bandaríkjunum á sviði líftækni. Bréf deCODE voru í kjölfarið skráð af markaði í Bandaríkjunum.

Söluverð Íslenskrar erfðagreiningar til Amgen er 52 milljarðar og því ljóst að Saga Investment hefur hagnast nokkuð á viðskiptunum, en kaupverð þess árið 2009 var um 14 milljarðar króna. Síðan þá hafa eigendur félagsins reyndar fært um 5,5 milljarða til landsins í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. 

Íslensk erfðagreining
Íslensk erfðagreining Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka