Stjórn Lífeyrissjóðs bankamanna segir í tilkynningu að engin tilvik séu um meint formfestuleysi við framkvæmd fjárfestinga og að upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar sé ekki í góðu lagi. Stjórnin bregst þar við athugasemdum Fjármálaeftirlitsins eftir gagnsæistilkynningu fyrr í dag. Í yfirlýsingu lífeyrissjóðsins er bent á margt sem sjóðurinn telur ekki eiga við eða vera rangt í skoðun eftirlitsins.
Segir sjóðurinn sterkasta mælikvarðann á gæði starfs sjóðsins vera ávöxtun hans sem hafi verið með ágætum, jafnvel við þær erfiðu aðstæður sem komu upp á árinu 2008. Meðalraunávöxtun síðustu 10 ára var 3,86% fyrir aldursdeild sjóðsins og 3,98% fyrir hlutfallsdeild.
Varðandi upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar segir sjóðurinn að starfsreglur hafi verið settar fyrir framkvæmdastjóra á árinu 2003 til breytinga á eldra fyrirkomulagi. Í þeim er sérstakur kafli um upplýsingagjöf til stjórnar. Varðandi hæfi stjórnarmanna og tengsl þeirra við fyrirtæki sem eru til umfjöllunar segir sjóðurinn slíkt ekki hafa skipt máli. „Því er til að svara að stjórn gerir ekki athugasemd við að heppilegra hefði verið að tiltekinn stjórnarmaður hefði vikið af fundi þegar málefni fyrirtækis sem hann starfaði hjá var tekið til umfjöllunar. Hitt hlýtur þó að skipta meginmáli í þessu sambandi að vera stjórnarmannsins hafði engin áhrif á ákvörðun stjórnar og gekk hún raunar þvert á hagsmuni þess fyrirtækis sem stjórnarmaðurinn starfaði hjá.“
Sjóðurinn viðurkennir að einhver mistök hafi verið gerð við útfyllingu á skýrslum til Fjármálaeftirlitsins, en það sé búið að lagfæra og engu hafi verið leynt í því sambandi. Varðandi pappírslaus viðskipti milli deilda sjóðsins segir í tilkynningu frá stjórninni að málið hafi verið lögmætur gjörningur og lagður fyrir stjórn. „Í því eina afmarkaða tilviki sem um ræðir, liggur fyrir fyrirfram álit lögfræðings sjóðsins að um lögmætan gjörning hafi verið að ræða, sem síðan var tekinn fyrir af stjórn sjóðsins, samþykktur og skilmálar lánsins nákvæmlega skilgreindir í fundargerð. Þar að auki liggja fyrir fylgiskjöl í bókhaldi beggja deilda.“
Athugasemdir Fjármálaeftirlitsins má sjá hér