Þrátt fyrir að það séu fá sýnileg merki um að bólumyndun eigi sér stað á fasteignamarkaði, þá er ekki þar með sagt að sú hætta sé ekki til staðar. Greiningardeild Arion banka bendir í markaðspunktum sínum á þrjár meginástæður þess að langvarandi gjaldeyrishöft muni auka hættuna á því að almennt eignaverð í landinu hækki umfram það sem eðlilegt sé og myndi þar með eignabólu.
Í fyrsta lagi getur mikil aukning peningamagns í umferð ýtt undir bólumyndun. Þetta gerist þegar krónum í umferð fjölgar hraðar en þeim vörum sem hægt er að kaupa fyrir þær, þá hefur verðlag tilhneigingu til að hækka. Í kjölfar hrunsins stóð eftir mikið magn peninga en á sama tíma voru og hafa verið fáir fjárfestingarkostir í boði til að mæta þeim krónum sem urðu eftir í hagkerfinu. Við slíkar aðstæður skapast hætta á bólumyndun.
Hér á landi er nokkuð einsleitur fjárfestahópur og hætta á hjarðhegðun. Þar sem eignabólur geta verið drifnar áfram af væntingum er hætt við að lítið þurfi að koma til þannig að hjarðhegðun myndist á markaði og fjárfestar elti hver annan.
Í þriðja lagi geta lágir vextir orsakað bólumyndun. Í lokuðu hagkerfi þar sem fáir fjárfestingarkostir eru í boði og áhættufælni mikil leitar fjármagn inn í ríkistryggðar eignir (innlán og skuldabréf) sem þrýstir niður vöxtum líkt og gerst hefur í stuttum ríkistryggðum verðbréfum. Lágir vextir skapa hættu á útlánadrifinni bólumyndun og aukinni áhættusækni. Greiningardeildin bendir þó á að þegar tekið er tilliti til verðlags- og gengisþróunar hafi útlán ekki vaxið frá hruni.
Að mati greiningardeildar er þó ekki tímabært að tala um að bólumyndun sé að eiga sér stað í eignaverði heimila þar sem hækkanir á ýmsum eignamörkuðum undanfarin misseri eru nokkuð dæmigerðar fyrir markaði í bata. Þróun fasteignaverðs hefur til að mynda almennt haldist í hendur við aukin umsvif í hagkerfinu.