Tölur Seðlabanka Íslands um kortaveltu benda til þess að hallinn á þjónustujöfnuði, að minnsta kosti hvað ferðaþjónustu varðar, verði talsvert minni á fjórða ársfjórðungi nú í ár en hann hefur oft áður verið. Skýringin er mikill vöxtur erlendrar kortaveltu hér á landi sem helst í hendur við mikla aukningu erlendra ferðamanna á tímabilinu. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Segir þar að kortavelta Íslendinga í útlöndum hafi numið rúmum 6,7 milljörðum í nóvember sem er aukning upp á tæplega 6% að nafnvirði frá sama mánuði í fyrra. Á sama tímabili jókst kortavelta útlendinga á Íslandi um 57% að nafnvirði, en hún nam alls 4,3 milljörðum í nóvembermánuði.
Er þessi gríðarlega aukning í kortaveltu útlendinga hér á landi í takti við tölur Ferðamálastofu Íslands sem sýndu að brottfarir erlendra ferðamanna um Leifsstöð voru 61% fleiri nú í nóvember en þær voru á sama tíma í fyrra. Lítil aukning varð á brottförum Íslendinga um Leifsstöð á sama tíma, eða rétt um 0,6%, en þær tölur geta sveiflast talsvert milli mánaða enda kom þessi litla aukning í kjölfarið á ríflega 10% aukningu á milli ára í október.
Munurinn á veltu Íslendinga og útlendinga í október og nóvember var 5 milljarðar, en þrátt fyrir það voru íslenskir ferðamenn 20 þúsund færri en þeir sem koma hingað til lands. Greiningardeildin segir að skýringuna sé væntanlega að finna í því að utanlandsferðir Íslendinga á þessum árstíma eru gjarnan verslunarferðir þar sem kortin eru straujuð af kappi, en afar ólíklegt er að útlendingar komi hingað til lands í sama tilgangi.