Það eru tækifæri í að auka flug til Noregs og Kanada á næstunni og nýju Boeing 737-MAX vélarnar sem voru keyptar nýlega munu nýtast vel í slík verkefni, sérstaklega að þétta vetrarumferðina. Þetta segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í viðtali í viðskiptaþættinum með Sigurði Má.
Segir Björgólfur að Bergen, Þrándheimur og Stafangur séu meðal vænlegra viðkomustaða í Noregi, en vestanhafs muni opnast aukin tækifæri á komandi hausti þegar takmarkanir sem félagið hefur til flugs þangað breytast. Hingað til hefur félagið aðeins mátt fljúga fjórum sinnum á viku yfir sumarið til Toronto, en Björgólfur segir færi vera þar.