„Við greiðum mikla skatta og við greiðum þá á tilskilinn hátt.“ Þetta sagði Eric Schmidt, stjórnarformaður Google í samtali við Bloomberg fréttaveituna og bætti við að hann væri mjög stoltur af þeirri skattauppbyggingu sem fyrirtækið hefði komið upp. Tekjur fyrirtækisins í Bretlandi voru 2,5 milljarðar punda í fyrra en einungis 6 milljónir voru greiddar í skatta. „Þetta er kallaður kapítalismi“ segir Schmidt, en sýnt hefur verið fram á að leitarvélarisinn hefur geymt um 10 milljarða Bandaríkjadollara á Bermúda og komst þar af leiðandi framhjá 2 milljarða dollara skatti á alþjóðavísu á síðasta ári.
Ólíklegt er að skoðun Schmidt verði tekið fagnandi, en George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í síðustu viku að hann vildi taka að sér að leiða alþjóðlegt átak í að koma í veg fyrir skattaundanskot frá stórum hagkerfum í skattaskjól. Bretland mun á næsta ári veita G8 samtökunum formennsku og líklegt þykir að þá muni ríkið beita sér fyrir þess átaki.