Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir að settur verði á laggirnar sérstakur auðlindasjóður hér á landi sem í muni renna tekjur í tengslum við mögulegan olíufund við Íslandsstrendur.
Þetta kemur fram í viðtali við Bloomberg fréttastofuna. Þar er fjallað um að Faroe Petroleum, Valiant Petroleum og Petoro séu fyrstu erlendu fyrirtækin sem hafi verið úthlutað leyfi til að leita að olíu eða jarðgasi á Drekasvæðinu.
„Þar sem við lítum á þessa auðlind sem þjóðarauðlind, þá verður settur á laggirnar auðlindasjóður fyrir þjóðina,“ sagði Ólafur í samtali við Bloomberg í London í vikunni. Hann bætti við að þetta væri almenn stefna.
Hann segir að fyrirtækin sem muni hefja olíuleit verði að „vinna sína vinnu. Þetta mun taka nokkur ár,“ segir forsetinn.
Þá er haft eftir Ólafi að í framtíðinni muni fyrirkomulag íslensks olíuiðnaðar tengjast samstarfi við Norðurlöndin og Evrópu. Regluverkið muni byggja á íslenskum vatnsorku- og jarðhitaiðnaði.