Um 10 til 30% af verðmæti jólagjafa brennur upp í allratapi, eða sem nemur allavega 800 milljónum á þessu ári. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á smekk og mismunandi virði gjafa í augum þiggjanda og gefanda sýna að gjafafyrirkomulagið tekur sinn toll og skilur eftir sig töluvert allratap í hagkerfinu. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þar sem jólagjafirnar eru skoðaðar frá aðeins öðruvísi sjónarhorni en vanalega er gert.
Jólin nálgast og á meðan börn hlakka til gjafa, fjölskyldur til samverustunda og launamenn til kærkomins frís frá amstri hversdagsins horfa hagfræðingar með glýju til jólaverslunarinnar. Í desember má nefnilega vænta þess að velta í smásölu sé mörgum milljörðum meiri en í meðalmánuðinum. Greiningardeildin spyr þó hvort þessi innspýting sé of dýru verði keypt í nýjustu markaðspunktum sínum.
Segir þar að hagfræðingum sé mjög umhugað um fyrirbæri sem þeir kalla allratap (e. deadweight loss). Allratapi má best lýsa sem glötuðum ábata í hagkerfinu, en þaðan kemur nafnið; það tapa allir á slíku. Ástæða þess að mörgum er hugtakið ofarlega í huga er sú að þegar allratap er til staðar væri hægt að auka vellíðan eins eða fleiri án þess að draga úr vellíðan neins – með öðrum orðum kemur allratapið til af óhagræði sem hægt er að vinna gegn.
Þegar við kaupum jólagjöf handa öðrum reynum við að finna eitthvað sem viðkomandi hugnast – við reynum að giska á „vild“ þiggjandans, en eigum um leið á hættu að val okkar samræmist henni ekki. Við getum tekið dæmi. Ef kona kaupir peysu (sem henni finnst ægilega smart) á eiginmann sinn fyrir tíu þúsund krónur, en svo vill þannig til að manninum finnst hún ekki jafnsmart og hefði sjálfur í mesta lagi verið tilbúinn að greiða átta þúsund krónur fyrir sömu peysu, þá er mismunurinn þar á milli allratap upp á tvö þúsund krónur.
Hér ber að athuga að þetta merkir ekki að eiginmaðurinn sé beinlínis óánægður með gjöfina, eða að gjöfin hafi ekki bætt hag hans, heldur eingöngu að hægt hefði verið að bæta hag hans meira án þess að leggja út í neinn viðbótartilkostnað. Ef konan hefði t.d. einfaldlega látið eiginmanninn hafa tíuþúsund krónur í reiðufé og sagt honum að eyða þeim í hvað sem myndi færa honum mesta ánægju eða ábata, þá hefði vellíðan mannsins aukist án þess að konan hefði þurft að eyða meiru en hún gerði í peysuna.
Greiningardeildin rifjar upp rannsókn Joel Waldfogel, kennara við Yale háskóla, sem gerði fyrstur tilraun til að meta umfang þessa allrataps fyrir tæpum 20 árum síðan í áhrifaríkri grein,The Deadweight Loss of Christmas. Þar komst hann að því að allratapið ræðst bæði af því hversu vel gefandinn er upplýstur um smekk þiggjandans og því hversu vel þiggjandinn er upplýstur um eigin smekk. Niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars að mökum tekst yfirleitt best að velja gjafir, en öfum, ömmum og fjarskyldum ættingjum verst.
Þegar mismunandi virði hlutanna var skoðað í augum þiggjanda og gefanda kom í ljós að munurinn var að jafnaði um 10 til 30%. Sú tala er því ábati sem fer forgörðum, eða allratap. Samkvæmt þessum tölum er allratap hér á landi vegna jólagjafa um 800 milljónir, en Rannsóknarsetur verslunarinnar spáir því að velta smásöluverslana í nóvember og desember komi til með að nema tæplega 78 milljörðum króna á Íslandi í ár. Því ætti allratap vegna jólagjafakaupa að nema á milli 800 og 2400 milljónum króna hérlendis í ár.
En þetta þýðir þó ekki að jólagjafir séu alltaf óskynsamleg, því hlutir geta fengið virði vegna þess eins að þeir voru gefnir að gjöf. Þannig getur jafnvel bók sem aldrei verður tekin úr plastinu orðið að minningu um gleðileg jól og væntumþykju þess sem gaf hana. Fólk þarf því ekki að hætta að kaupa gjafir og gefa bara pening, þótt gjafirnar virðist við fyrstu athugun hugsanlega vera óhagkvæmari ráðstöfun.