Með fjölgun þrepa á virðisaukaskatt vegna gistiþjónustu flækist skattkerfið og aukin hætta verður á undanskotum undan skatti. Þetta kemur fram í áliti ríkisskattstjóra sem unnið var fyrir Alþingi og Morgunblaðið greindi frá í morgun.
Heimildarmenn sem mbl.is hefur rætt við innan hótelgeirans segja að þetta muni bjóða upp á allskonar reiknikúnstir og taka undir áhyggjur skattstjóra um aukin undanskot. Var meðal annars bent á að auðvelt væri fyrir hóteleigendur að haga reikningi þannig að verð væri hækkað á þjónustu hótelsins sem áður hefur ekki verið rukkað fyrir og ber ekki virðisaukaskatt, eða færa gjaldaliði undir þjónustu sem ber lægri skatt.
Meðfylgjandi á mynd er eitt dæmi þar sem gisting fyrir 2 er sett upp með mismunandi hætti fyrir og eftir breytingu. Athygli vekur að niðurstaðan verður sú sama fyrir ríkið í formi innheimtu á virðisaukaskatti. Þeir sem munu aftur á móti tapa á þessu eru þeir sem áfram munu greiða virðisaukaskatt samviskusamlega. Auk þess mun almenn kynning landsins sem ferðamannastaðar væntanlega dala, en ferðaskrifstofur horfa mikið til skattprósentna mismunandi landa við ákvörðun á áfangastöðum.
Í þessu dæmi er gistingunni, sem áætlað er að hækki úr 7% í 14%, skipt niður í 3 flokka og vægi gistingarinnar sem slíkrar minnkað töluvert. Í stað þess að morgunmatur sé innifalinn í verðinu er hann nú sér, en matur ber 7% skatt. Einnig væri hægt að koma inn ýmiskonar þjónustu sem ekki ber virðisaukaskatt, svo sem líkamsrækt. Ráðstafanir sem þessar gætu því leitt til þess að engin nettóbreyting yrði á skattinnheimtu, eða að sumir aðilar færðust út í aukin undanskot á kostnað þeirra sem áfram greiða fullan skatt af gistingu og skekkja þar með samkeppnina.
Þeir sem mbl.is hefur rætt við segja að líklegt sé að þetta muni aðeins mola niður siðferðisvitund rekstraraðila, sem hafi mikið gagnrýnt skamman fyrirvara við hækkun skattsins og lítinn aðlögunartíma, meðal annars þar sem gistingar fyrir næsta ár hafi nú þegar verið auglýstar á ákveðnu verði án hækkunarinnar erlendis.
Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir ríkisskattstjóra að mikil og mannaflsfrek vinna liggi fyrir til að breyta tölvukerfum embættisins vegna nýja skattþrepsins, en auk þess á hækkunin að eiga sér stað 1. maí sem mun kalla á auka uppgjör á næsta ári.