Samningur um þróun vísindagarðs

Eyþór Ívar Jónsson
Eyþór Ívar Jónsson Klak

Samningur um þróunarsamstarf vegna uppbyggingar nýsköpunarseturs og vísindagarðs hefur verið undirritað milli Klaks - Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Seed Forum Iceland og SIVA (þróunarfélag Noregs). SIVA mun tilnefna leiðandi aðila í norska nýsköpunarumhverfinu til þess að verða Íslendingum innan handar við mótun á hugmyndum um nýsköpunarsetur og vísindagarða og leiðir til fjármögnunar.

Eyþór Ívar Jónsson, forstjóri Klaks, segir í samtali við mbl.is að SIVA hafi mikla reynslu á þessu sviði og hafi komið að uppbyggingu 9 vísindagarða og á milli 40 og 50 nýsköpunarsetra. Hann segir að bæði Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands hafi verið að vinna að svipuðum hugmyndum fyrir hrun, en legið ofan í skúffu síðan þá. Að hans sögn hefur þurft utanaðkomandi afl til að koma verkefninu af stað aftur og SIVA geti það.

Horft er á svæðið kringum Öskju og Íslenska erfðagreiningu í Vatnsmýrinni, en Eyþór segir að það svæði hafi áður verið skipulagt af Háskóla Íslands með þetta markmið í huga. Fjármögnun er auðvitað einn af mikilvægustu þáttum verkefnisins og Eyþór segir að samkomulagið feli í sér að finna leiðir til að fjármagna garðinn. 

Aðspurður um hlutverk og mikilvægi svona framkvæmda segir Eyþór að þar sé hægt að koma saman rannsóknastofum úr einkageiranum og úr háskólaumhverfinu. Við það bætist svo nýsköpunarmiðstöðvar og þannig verði til vettvangur til að koma nýjum verkefnum úr rannsóknarvinnu yfir í fyrirtæki sem geti farið að framleiða verðmæti. Þannig séu rannsóknir og háskólasamfélagið tengt við atvinnulífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK