Vísitala neysluverðs mun hækka um 0,3% í desember samkvæmt spá greiningardeildar Arion banka. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan áfram mælast 4,5% í desember. Bráðabirgðaspá greiningardeildar fyrir næstu mánuði gerir ráð fyrir verðhjöðnun í janúar um 0,2%, 0,7% hækkun í febrúar og 1% hækkun í mars. Ársverðbólgan fer ört lækkandi á komandi mánuðum en gangi spáin eftir verður verðbólgan komin í 3,6% í mars á næsta ári.
Í markaðspunktum greiningarinnar kemur fram að þrátt fyrir að gengisstyrking fyrr á árinu hafi lítið skilað sér í verðlagið sé gengisleiðréttingin sem fylgi í kjölfarið að koma fram af fullum þunga. Gert er ráð fyrir að þessi áhrif fjari hægt og bítandi út á næstu mánuðum. Greiningardeildin beinir sjónum sínum einnig að húsnæðislið vísitölunnar sem hefur ekki hækkað í samræmi við hækkandi leiguverð. Er talið að hagstæð vaxtakjör lánastofnana hafi spilað þar inn í, en að á fyrsta ársfjórðungi næsta árs muni þau lækkunaráhrif fjara út.
Þeir liðir sem höfðu mest áhrif til hækkunar að þessu sinni voru húsnæði, flug og árstíðabundnir þættir og gengisáhrif. Eldsneytisverð hafði aftur á móti 0,11% áhrif til lækkunar.