Möguleg bólumyndun í ferðaþjónustu

Torfi G Yngvason, forstjóri Arctic Adventures
Torfi G Yngvason, forstjóri Arctic Adventures Arctic Adventures

Ísland er í augnablikinu tískuáfangastaður fyrir hina ofurríku sem eyða miklu. Til að viðhalda því og auka enn frekar á komu ríkra hópa, ráðstefnugesta og stórra viðburða er nauðsynlegt að ráðast í byggingu 5 stjörnu hótels í miðbænum. Þetta er meðal þess sem Torfi G. Yngvason, forstjóri Arctic adventures, segir í samtali við mbl.is, en hann spáir áfram góðum vexti í ferðaþjónustu hér á landi á næsta ári, þrátt fyrir hækkandi skattheimtu á greinina. Það sé vegna þess að hinn almenni ferðamaður sé ekki enn upplýstur um hækkandi verð, en það muni fljótlega koma niður á greininni og veikja þjónustuaðila hérlendis og það hafi slæm langtímaáhrif.

Mbl.is mun á næstu dögum fara yfir árið og skoða framtíðarhorfur á komandi misserum með forráðamönnum nokkurra fyrirtækja hérlendis. Torfi mun ríða á vaðið, en mikill uppgangur hefur einkennt ferðaþjónustuna síðustu ár. Þrátt fyrir það er ýmislegt sem hann telur að betur megi fara og að horfa þurfi til lengri tíma þegar kemur að þessari nýju meginstoð íslensks útflutnings.

Norðurljósaferðirnar komið á óvart

Árið í ár hefur verið mjög gott að mati Torfa, en hann segir að sú vinna sem lögð hafi verið í að dreifa ferðamannastrauminum betur yfir árið og ná þannig inn vetrarferðamennsku í auknum mæli sé að auka arðsemi ferðaþjónustufyrirtækja nokkuð. Segir hann að „mjög jákvæð merki haf[i] verið á árinu.“ Norðurljósaferðirnar eru það sem kemur mest á óvart að hans mati, en fólk er í auknum mæli farið að ferðast hingað á veturna vegna þeirra, en einnig sé þetta vinsæl viðbót hjá þeim sem komi hingað af öðrum ástæðum. 

Arctic adventures er afþreyingarfyrirtæki og ferðaskrifstofa sem sérhæfir sig í ferðum, allt frá hellaskoðun yfir í jöklaferðir og norðurljósaskoðun. Torfi segir að þrátt fyrir nokkuð langa sögu sé fyrirtækið enn að stækka mikið og tekur sem dæmi að hlutfallslega hafi viðskiptavinum fyrirtækisins fjölgað meira en tvöfalt miðað við fjölgun ferðamanna á Íslandi. Hann segir þetta til marks um að ferðamenn séu í auknum mæli að leita í ævintýraferðir og skipulagðar skoðunarferðir.

Möguleg bólumyndun

Með góðu árferði í ferðaþjónustunni segir Torfi að greinin sé „drekinn sem sýni á sér kviðinn“, en þar á hann við að yfirvöld hafa kynnt töluverðar hækkanir á sköttum á gistiþjónustu og breytingar á vörugjöldum á bílaleigur sem mun hækka leigukostnað töluvert. Hann segir að stjórnvöld virðist sjá ákveðið tækifæri til að taka inn miklar tekjur á ferðaþjónustunni núna þegar ágætlega gengur. Þetta segir hann vera mestu ógnina við greinina sem stendur og að það sé „barnalegt að halda því fram að hlutir séu orðnir öruggir og komnir í farveg sem stóla megi á þegar aðeins hafa verið tvö nokkuð sterk ár.“ 

„Það eru gríðarleg mistök að auka skattheimtuna á þessu stigi. Það ætti að leyfa ferðaþjónustunni að þróast í 2 ár í viðbót til að sjá raunverulega hver árangurinn er,“ segir Torfi. Að hans mati er Ísland nú í tísku og því sé möguleiki á að einhverskonar bólumyndun eigi sér stað núna. Því sé viturlegt að sjá fyrst hver endanleg markaðsstærð landsins sem áfangastaðar sé. „Ef þetta er bara skyndilegur vaxtabroddur þá er auðvitað mjög slæmt að auka skattlagningu á þessum tíma,“ segir hann.

Ríkir ferðamenn mikilvægir

Torfi telur að tískufyrirbærið Ísland sé að miklu leyti komið til vegna kvikmyndaverkefna og mikils áhuga hinna ríku á landinu. Vegna þess hafi afkoman vegna einka- og sérferða verið sérstaklega góð á árinu, en hann segir að ríkir ferðamenn séu tilbúnir að borga töluvert aukalega til að fá auka natni á ferðalögum sínum og til að þess að fá að stýra hraða ferðarinnar betur. Þannig komist þeir meðal annars hjá mögulegum óþægindum sem gætu komið upp þegar um stærri hópa sé að ræða.

„Með verkefnum í kringum hina ríku má hafa mun sérhæfðari og dýrari þjónustu“ segir Torfi og nefnir í því samhengi að margir séu tilbúnir að greiða fyrir að fara á staði sem fáir komi á eða sjá þá á þeim tíma sem ekki margir geri. Nefnir hann sem dæmi miðnæturferðir á vélsleðum á Langjökul og þyrluferðir þar sem óbyggðirnar eru skoðaðar. Vegna þessa tískuáhuga segir hann nauðsynlegt að sjá hvort fjölgun ferðamanna muni halda áfram næstu ár eða hvort bólan muni springa.

5 stjörnu hótel nauðsynlegt

Eitt af þeim verkefnum sem Torfi telur nauðsynlegt að ráðast í á næstunni til að sporna við því að Ísland missi stall sinn sem vinsæll staður hjá ríkari ferðamönnum er að hér rísi stórt 5 stjörnu hótel nálægt miðbænum. Hann segir að fyrir marga stóra viðburði, ráðstefnur og ríka ferðamenn skipti þetta miklu máli. „Þegar menn sjá að þetta er ekki til staðar hérlendis þá er Ísland ekki lengur í myndinni,“ segir hann og ítrekar að þetta sé sá hópur sem sé hvað mikilvægastur í ljósi þess hvað hann skili miklum útflutningstekjum til þjóðarbúsins.

Hjá Arctic adventures starfa í dag á milli 60 og 70 manns, en um 200 á sumrin þegar mest er. Torfi gerir ráð fyrir að það verði um 15% aukning starfsmanna og viðskiptavina á næsta ári, en það myndi þýða um 30 nýjar stöður yfir sumartímann. Þetta segir hann raunhæft markmið í ljósi þess að hinn almenni ferðamaður sé ekki enn orðinn upplýstur um komandi verðhækkanir hérlendis, auk þess sem þær lendi margar hverjar á innlendum gistiþjónustum. Það verði því áfram fjölgun á næsta ári, en þar á eftir muni væntanlega hægja á fjölguninni miðað við óbreytt ástand. 

Gistiþjónustur í íbúðahverfum

Það er þó ekki aðeins hækkandi skattlagning sem Torfi gagnrýnir varðandi ferðamannageirann hérlendis. Hann segir að svört atvinnustarfsemi hafi aukist mikið og eftirlit með slíku sé sama og ekkert. „Við sækjum fólk á hótel og gististaði og fyrir um 18 mánuðum byrjuðum við að sækja fólk í íbúðahverfi um allan bæ,“ segir hann. Við nánari skoðun hafi hann fundið út að hundruð íbúða í miðbænum séu í leigu án þess að vera með leyfi og stundi því væntanlega svarta starfsemi. Þetta telur Torfi að ýti undir aðra svarta ferðaþjónustu og geri samkeppnina mjög ósanngjarna. Segir hann virkt eftirlit stórlega vanta í greinina.

Úr ísklifri á vegum félagsins
Úr ísklifri á vegum félagsins Arctic Adventures
Arctic Adventures býður meðal annars upp á snorklferðir.
Arctic Adventures býður meðal annars upp á snorklferðir. Arctic Adventures
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK