Seðlabankanum bárust 86 tilboð til að kaupa evrur í skiptum fyrir íslenskar krónur til fjárfestingar til langs tíma í íslensku atvinnulífi eða gegn greiðslu í ríkisverðbréfum í síðasta gjaldeyrisútboði bankans. Heildarupphæð tilboða sem bankinn tók var 30,9 milljónir evra, sem er um 57% hærri upphæð en var samþykkt í útboðinu í nóvember. Bankinn tók tilboðum upp á 4,5 milljónir evra gegn greiðslu í ríkisverðbréfum, en það er aukning úr 2,9 milljónum áður. Tilboð vegna fjárfestingarleiðarinnar jukust einnig og fóru úr 16,8 milljónum evra í nóvember upp í 26,4 milljónir nú í desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.
Kaupendur ríkisverðbréfanna hafa að 81% verið lífeyrissjóðir og aðrir aðilar hafa keypt 19%. Undirliggjandi fjárfestingar fjárfestingarleiðarinnar skiptast með þeim hætti að hlutabréf hafa verið 48% kaupanna, skuldabréf 38%, fasteignir 13% og kaup í verðbréfasjóðum 1%. Samanlagðar fjárfestingar á grundvelli fjárfestingarleiðarinnar nema 381 milljónum evra sem samsvarar u.þ.b. 76 milljörðum króna. Fjárfestingarnar nema 4,7% af vergri landsframleiðslu ársins 2011.
Næstu gjaldeyrisútboð verða haldin 5. febrúar, 19. mars og 30. apríl 2013.