Á næstunni mun myndast svigrúm fyrir aukið álag á hverfi miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og mun verð á eignum þar hækka hlutfallslega meira en í þeim hverfum sem eru fjær miðbænum. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka, en þar er kafað dýpra ofan í niðurstöður skýrslu greiningarinnar um fasteignamarkaðinn sem kom út fyrr í mánuðinum.
Eignir í eða nálægt miðbæ eru að öllu jöfnu dýrari en þær sem eru fjær. Fyrir því getur verið fjöldi ástæða; ef hátt hlutfall íbúa byggðakjarna sækir atvinnu nálægt miðbæ hans þurfa þeir að leggja á sig stighækkandi ferðakostnað eftir því sem þeir búa fjær miðbænum. Þetta þrýstir verðinu niður fjær miðbæ. Til viðbótar fjölgar íbúðum í elstu hverfum næst miðbæ hægar en á jaðrinum, og ef það þykir eftirsóknarvert að búa þar, þá eykst þrýstingur á verð hlutfallslega meira nær honum en fjær.
Greiningardeildin bendir á að þegar þensla er á fasteignamarkaði eykst þetta álag jafnan. Þá er fólk tilbúið að greiða hærra verð fyrir staðsetningu en áður. Á síðustu tveimur áratugum hefur þetta hlutfall aukist mikið, en í kjölfar hrunsins lækkaði það þó nokkuð. Með þenslu á komandi árum gerir greiningardeildin ráð fyrir að svigrúm verði fyrir aukið álag. „Þetta merkir að í hverfum miðsvæðis, t.d á Seltjarnarnesi, í miðborg, Vesturbæ, Hlíðum og nálægum svæðum, hækkar verð fasteigna hlutfallslega meira en fjær miðbæ, t.d. í nágrannasveitarfélögum, Breiðholti, Árbæ og víðar“ segir greiningardeildin.