Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segist sjá fyrir sér verulegar breytingar á bæði Kringlunni og svæðinu í kringum verslunarmiðstöðina eftir nokkur ár. Þetta er meðal þess sem hann segir frá í þættinum Viðskipti með Sigurði Má á mbl.is. Stærsti eigandi byggingarinnar, Reitir, á nú þegar lóðarréttindi á svæðinu og segir Sigurjón að í gangi sé þróunarvinna á vegum borgarinnar og Kringlunnar um mögulega stækkun til framtíðar.
Aðspurður hvort hann sjái mikla þörf fyrir aukningu verslunarhúsnæðis segir Sigurjón að eftirspurn eftir plássi sé mikil í byggingunni. „Þrátt fyrir þessa lægð sem við höfum farið í gegnum, þá hefur aldrei staðið autt bil í verslunargötu Kringlunnar.“ Hann segir að hægt væri að fylla nokkur þúsund fermetra í viðbót án vandræða.