„Það sem af er þessu ári höfum við séð vöxt bæði í aðsókn og veltu og við erum ekki að upplifa í Kringlunni, á þeim meðaltalstölum sem við höfum, þann mikla samdrátt í fatnaði og skóm“ sem mælst hefur í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þetta segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má hér á mbl.is.
Rannsóknarsetrið birti nýlega tölur um veltu á fyrstu 10 mánuðum ársins og var þar meðal annars 12,7% samdráttur í sölu á fatnaði. Sigurjón segir að veltutölur sem verslanir í Kringlunni taki saman sýni að það hafi orðið aukning hjá þeim í fatasölu upp á 4% á sama tíma. Telur hann að Kringlan njóti í þessu samhengi góðs af hefð, staðsetningu og samsetningu af verslunum.