Stórir samningar og opnun í Kísildal

Guðmundur Gunnlaugsson, markaðsstjóri Clöru.
Guðmundur Gunnlaugsson, markaðsstjóri Clöru. Clara

Fyrir 5 árum fengu fjórir vinir hugmynd að því að sníða forrit sem greindi skoðanaskipti á netinu og gæti meðal annars sagt til um hvort umræða væri jákvæð eða neikvæð um ákveðið vörumerki eða fyrirtæki. Í dag starfa 11 manns hjá fyrirtækinu, sem fékk nafnið Clara, þar af tveir í Kísildalnum í Kaliforníu. Eins og hjá mörgum öðrum nýsköpunarfyrirtækjum hefur verið mikil sköpun hjá Clöru, en á næsta ári er stefnt að því að ná stóra markmiðinu um að snúa tapi yfir í hagnað og láta fjárfestingu síðustu 5 ára fara að skila sér til baka. Í samtali við mbl.is fer Guðmundur Gunnlaugsson, markaðsstjóri Clöru, yfir farinn veg og næstu skref fyrirtækisins.

Mbl.is fer þessa dagana yfir árið og skoðar framtíðarhorfur á komandi misserum með forráðamönnum nokkurra fyrirtækja hérlendis. Áður var rætt við Torfa G. Yngvason hjá Arctic adventures um ferðaþjónustuna, en nú er komið að nýsköpun og sprotafyrirtækjunum. 

Greining fyrir einn stærsta tölvuleik heims

Helsta varða ársins hjá Clöru var stóraukin markaðssókn í Bandaríkjunum. Guðmundur segir að samhliða því hafi fyrirtækið verið mjög virkt á nokkrum af stærstu leikjaráðstefnum heimsins, meðal annars í Kaliforníu. „Í kjölfarið á þessu náðum við töluvert góðum árangri í sölu, meðal annars lokuðum við samningi við einn stærsta tölvuleik sem til er, League of Legends.“

Var kerfi þeirra, sem hefur fengið nafnið Resonata, valið til að fylgjast með umræðunni á svæðum sem tengjast leiknum, en meira en 30 milljónir spila leikinn í dag. Guðmundur segir að framleiðendur leiksins hafi fengið mörg verðlaun fyrir að styðja vel við leikjasamfélagið sitt og það sé því mikill heiður að hafa verið valinn til verkefnisins.

Clara gerði á árinu einnig samninga við Sony Computer Entertainment America, sem er það félag innan Sony-samsteypunnar sem er ábyrgt fyrir Playstation-tölvunni. Auk þess tók tölvuleikjaarmur Sony-hugbúnaðinn í notkun og þýski leikjaútgefandinn ProSibenSat. Segir Guðmundur að ákveðið hafi verið að leggja áherslu á tölvuleikjafyrirtækin þar sem sá iðnaður sé stærri en bæði kvikmynda- og tónlistariðnaðurinn og samfélögin í kringum tölvuleiki séu einnig mjög stór og virk og því sé virði hugbúnaðarins mjög mikið fyrir tölvuleikjafyrirtækin.

Til að geta einbeitt sér nánar að Resonata-kerfinu ákvað Clara að selja Vaktarann á árinu, en það er verkefni sem var þróað fyrir grófa greiningu á vörumerkjum og fyrirtækjum. Guðmundur segir að meginmarkmið sölunnar hafi verið að losna við sölu- og markaðsstarf á Íslandi. Starfsmenn Clöru viðhalda þó enn kerfinu tæknilega, en nýr eigandi sér um sölu og stuðning við notendur. Segir hann að munurinn á þessu kerfi og Resonata sé í meginatriðum sá að nýja kerfið kafi mun dýpra í greininguna og skoði líka hegðun notenda.

Nýtt viðskiptamódel á að skila Clöru yfir núllið

Guðmundur segir að spennandi tímar séu framundan hjá fyrirtækinu, en á næsta ári er gert ráð fyrir að fyrirtækið komi í fyrsta skipti út yfir núllinu. Til að ná því markmiði verður viðskipta- og sölumódelinu breytt nokkuð og farið í aukna samvinnu við fyrirtæki á markaðinum. 

„Við höfum verið að selja í gegnum síma og reynt að banka upp á eins margar dyr og hægt hefur verið. Nú viljum við fara að breyta aðeins til að gera fleiri samninga við fyrirtæki sem eru að vinna í sambærilegum lausnum. Sem dæmi má nefna fyrirtæki sem bjóða öðrum fyrirtækjum að búa til spjallborðskerfi“ segir Guðmundur, en þannig gæti Clara hannað greiningarhugbúnað ofan á þann pakka sem söluaðilar spjallkerfa bjóða í dag. 

„Þetta er sú leið sem við viljum láta reyna á núna til að hraða upp sölu og koma okkur á þann stað þar sem við værum sáttir við tekjuflæðið,“ segir hann, en hingað til hefur fyrirtækið verið að byggja sig upp, bæði markaðslega og með vöruna og ekki komið út í afgangi.

Nú þegar er Clara í samstarfi við nokkra aðila í Bandaríkjunum að sögn Guðmundar, en árið mun að miklu leyti fara í að skoða samninga við þau og frekara samstarf. Segist hann nokkuð öruggur um að „einum eða tveimur stórum samningum verði landað á árinu sem komi fyrirtækinu í plús og gott betur en það“.

Ætla ekki flytja út

Það að geta greint mikið magn texta og skilað verðmætum niðurstöðum er ekki nýr iðnaður og hefur lengi verið til. Sú nálgun sem Clara hefur þróað um að greina afmarkaðri samfélög á netinu ítarlega, út frá texta og hegðun notenda, er aftur á móti sérhæfðari, að sögn Guðmundar. „Það sem er að gerast á þessum markaði og er spennandi fyrir okkur er að stærri fyrirtæki eru að kaupa upp önnur sem eru komin af frumstigi.“ Segir hann stærri fyrirtækin gera þetta til að innlima tækni í sín kerfi, fá aðgang að nýjum mörkuðum og til að útiloka samkeppni. Þetta sé aftur á móti spennandi tækifæri fyrir Clöru, þó þeir geri ekki ráð fyrir neinu slíku á næsta ári. Þeir séu þó alltaf tilbúnir að skoða slík tilboð.

Aðspurður hvort áformað sé að færa fyrirtækið alfarið til Bandaríkjanna í ljósi þess að markhópurinn sé aðallega þar, segir Guðmundur svo ekki vera. Bæði sé dýrt að borga forriturum laun í Bandaríkjunum og stuðningskerfi sprotafyrirtækja hérlendis sé mjög gott.

Meðal annars nefnir hann skattaívilnanir og styrki frá Tækniþróunarsjóði og Háskóla Íslands sem fyrirtækið hefur fengið, auk markaðsstyrks sem það nýtti til erlendrar kynningar. „Það er mjög gott stuðningskerfi þegar kemur að þróunarhlutanum, bæði Tækniþróunarsjóður og skattaívilnanir hafa nýst okkur,“ segir hann. Það sem helst vanti upp á hérlendis sé stuðningur við að koma vörum á markað og byrja að ná fjármunum úr nýsköpunarvinnunni. Segir hann gjaldeyrishöftin mestu hindrunina á því sviði.

Vandamálið með gjaldeyrishöftin

„Gjaldeyrishöft takmarka áhuga erlendra fjárfesta á að setja peninga í íslensk félög. Ísland er heldur ekki enn búið að sanna sig sem tækniland, þannig að fjárfestar eru ekki allir með trú á íslenskum sprotafyrirtækjum þó mörg þeirra hafi gert frábæra hluti, eins og CCP og OZ,“ segir Guðmundur.

Áhugaleysi vegna gjaldeyrishaftanna hafi meðal annars gert markaðsstarf erlendis erfitt. „Það hefur aðeins komið niður á okkur og við höfum farið hljóðlegri leiðina inn á markaðinn, samanborið við sambærileg félög í Bandaríkjunum sem hafa eytt mjög miklum peningum í markaðssetningu.“

Guðmundur er þó ekki á því að endalaus peningaútlát bjargi öllu á þessum vettvangi. „Gott tengslanet trompar í öllum tilvikum aukna fjárfestingu eða styrki. Þegar þú þekkir til fólks eða fólk þekkir til þín og þú getur mælt með ákveðnum einstaklingi eða vöru, þá skilar það sér miklu meira en að setja meiri peninga í auglýsingar eða vera á ráðstefnum.“ Segir hann Clöru hafa nýtt sér sendiráð og Íslandsstofu, en slíkt nái þó bara ákveðið langt og að þarna sé tækifæri fyrir bæði stjórnvöld og stærri fyrirtæki til að búa til aukin verðmæti og aðstoða íslensk félög í uppbyggingu tengslanets.

Starfsmenn Clöru auk forseta Íslands.
Starfsmenn Clöru auk forseta Íslands. Clara
Clara
Clara
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK